68% í Kraganum styðja tillögurnar

Um 68% þeirra sem svöruðu fyrstu spurningu vilja að tillögur …
Um 68% þeirra sem svöruðu fyrstu spurningu vilja að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá verði lagðar til grundvallar nýju frumvarpi á Alþingi. mbl.is

65,5% kjósenda í Suðvesturkjördæmi [Kraganum] vilja að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Kjósendur í Suðvesturkjördæmi sögðu já við öllum spurningum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í gær. Alls kusu 32.138 manns og var kjörsókn 51,37%. Auðir seðlar og ógildir voru 497, þar af auðir seðlar 280.

Við fyrstu spurningu um hvort kjósendur vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar við gerð frumvarps að nýrri stjórnarskrá sögðu 20.739 já eða 65,5%. Nei sögðu 9.679 eða 30,6%. 1.223 skiluðu auðu í þessari spurningu eða 3,9%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 68,2% já við henni.

Við annarri spurningu um hvort lýsa eigi náttúruauðlindum sem ekki eru í einkaeign sem þjóðareign í nýrri stjórnarskrá sögðu 24.367 já eða 77%. Nei sögðu 4.026 eða 12,7%. 3.248 svöruðu spurningunni ekki eða 10,3%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 85,8% já við henni.

Við þriðju spurningu um hvort í stjórnarskrá eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju sögðu 16.408 já eða 51,9% og 11.995 sögðu nei eða 37.9%. 3.238 svöruðu ekki eða 10,2%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 57,8% já við henni.

Afgerandi stuðningur við að persónukjör í alþingiskosningum

Við fjórðu spurningu um hvort fólk vildi að persónukjör í kosningum til Alþingis yrði heimilað í meira mæli en nú er sögðu 22.691 já eða 71,7% og nei sögðu 5.140 eða 16,2%. 3.810 svöruðu spurningunni ekki eða 12% kjósenda. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 81,5% já við henni.

Við fimmtu spurningu um hvort atkvæðavægi á landinu eigi alls staðar að vera jafnt sögðu 21.126 manns já eða 66,8%. Nei sögðu 6.549 eða 20,7%. Þeir sem ekki greiddu atkvæði við spurningunni voru 3.966 eða 12,5%. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 76,3% já við henni.

Við sjöttu spurningu um hvort í stjórnarskrá eigi að vera að tiltekið hlutfall atkvæðabærra manna eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sögðu 20.610 já eða 65,a%. Nei sögðu 6.910 eða 21,8% og 4.121 svöruðu ekki eða 13% kjósenda. Ef einungis er miðað við gild greidd atkvæði við spurningunni sögðu 74,9% já við henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert