Sá stærsti í nótt var 5,6 að stærð

Jarðskjálftavirknin á Norðurlandi og norður af Siglufirði hefur verið umtalsverð …
Jarðskjálftavirknin á Norðurlandi og norður af Siglufirði hefur verið umtalsverð og fjöl margir skjálftar stærri en 3,0 síðan í gærkvöldi. Sá stærsti var 5,6 rétt fyrir hálf tvö í nótt. Veðurstofa Íslands

„Þetta mun vara í nokkurn tíma. Það hafa verið að koma eftirskjálftar upp á 3,0 og má búast við við skjálftum upp á 3,0 og 4,0 áfram. En ómögulegt að segja um einhverja stærri. Það hafa verið skjálftar upp á 7,0 á Tjörnesbrotabeltinu en ekkert að sjá nein merki um að það sé neitt að gerast þannig. En þessi virkni heldur áfram. Hún hefur náttúrlega minnkað töluvert mikið síðan í nótt en er samt samt mikil virkni ennþá í gangi,“ sagði Gunnar Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands um skjálftavirknina fyrir norðan land sem gengið hefur yfir landið.

„Upptökin eru 19-20 km NA við Siglufjörð og við höfum verið að endurmeta stærsta skjálftann. Hann varð í nótt kl. 01:25 og miðað við gögn sem hafa verið að koma í gegnum skjálftastöðvar úti í heimi í Evrópu og Ameríku þá hefur hann fengið stærðina 5,6. Við mátum hann fyrst 5,2 en hann er eilítið stærri,“ sagði Gunnar.

Fundust í höfuðborginni, á Ísafirði og Seyðisfirði

„Þessir [stóru] skjálftar hafa fundist mjög vel á Norðurlandinu. Sérstaklega á Siglufirði. En þeir hafa líka fundist alla leiðina til Ísafjarðar og  aðeins veikt á höfuðborgarsvæðinu í nokkrum háhýsum. Jafnvel austur í Seyðisfjörð, þessir stærstu skjálftar,“ sagði Gunnar

Aðspurður hvar virknin sé og hvað sé að gerast sagði hann: „Þetta er syðst í Eyjafjarðarál, sem er sigdalur úti fyrir Norðurlandi og það er líklega eitthvað að síga í dalnum, þetta virðist vera eftir því. Þetta er að vísu nokkuð nálægt Húsavíkur/Flateyjar misgenginu, en virðist vera sigatburður í þessari sigdæld.

Segir enga eldvirkni vera nú

Eyjafjarðaráll er sigdæld og er syðsti hluti af Kolbeinseyjarhryggnum, tengist við hann norður úr. Þetta virðist vera meira eftir sigdældinni þarna og það er engin eldvirkni. Þetta eru bara venjulegir jarðskjálftar og engin merki um nein eldgos, óróa eða neitt slíkt.“

mbl.is