Börn spyrja um trúfrelsi sitt

Ferming.
Ferming. mbl.is/Rax

Umboðsmaður barna veltir upp þeirri spurningu í umsögn til Alþingis hvort ekki væri eðlilegra að börn gætu tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr trúfélagi á 14. aldursári, þ.e. sama ári og flest þeirra fermast. Umboðsmanni hafa borist erindi þar sem börn leita svara varðandi trúfrelsi sitt.

Umsögnin er um frumvarp innanríkisráðherra um trúfélög þar sem leitast er eftir því að jafna stöðu lífsskoðunarfélaga á við skráð trúfélög. Frumvarpið var lagt fram á 140. þingi en ekki afgreitt þá og var því lagt fram að nýju í september sl.

Í umsögn sinni nefnir umboðsmaður barna dæmi um erindi frá börnum, s.s. að börn vilji fermast í kirkju en foreldrar eru því mótfallnir og þegar börn langar ekki að fermast í kirkju heldur borgaralega, þvert á óskir foreldra. Einnig hafa komið upp dæmi um börn sem vilja alls ekki fermast.

Þá vísar umboðsmaður til þess að samkvæmt lögum um skráð trúfélög geti þeir sem eru orðnir 16 ára tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi. „Í ljósi þess að flest börn fermast á 14. aldursári veltir umboðsmaður barna upp þeirri spurningu hvort ekki væri eðlilegra að börn gætu tekið ákvörðun um inngöngu í eða úrsögn úr trúfélagi þá. Ákvörðun um það hvort eða hvar þau fermast verður því þeirra.“

mbl.is