Fann kind á lífi eftir 45 daga í fönn

Ærin frá Hellu var orðin mjög horuð eftir þessa löngu …
Ærin frá Hellu var orðin mjög horuð eftir þessa löngu vist. Ljósmynd/Anton Freyr Birgisson.

Birgir V. Hauksson, bóndi á Hellu í Mývatnssveit, fann í gær kind á lífi sem hafði verið föst í skafli í 45 daga. Hann segir að hún hafi verið orðin mjög horuð og það muni taka hana langan tíma að jafna sig, þ.e.a.s. ef hún lifi áfram.

Björgvin hefur eins og fleiri bændur í Þingeyjarsýslum sem lentu í fjárskaða farið um nær daglega til að svipast um eftir fé. „Við fórum saman tveir félagar og ég keyrði fram á hana. Það var opið niður á hana, en hún komst ekki upp úr holunni,“ sagði Birgir. Ærin var föst í skafli í Reykjahlíðarheiði.

Birgir sagðist hafa farið nokkrum sinnum fram hjá þessum stað. Ærin var í holu sem hefur verið að stækka smátt og smátt, m.a. vegna þess að hún hefur étið snjó. Holan var við barð þar sem kindin hefur leitað skjóls undan veðrinu. Birgir sagði að kindin hefði ekki haft neitt að éta nema mold.

Var orðin mjög horuð

Kindin sem Birgir fann var orðin mjög horuð. „Hún er ennþá lifandi en ég veit ekki hvernig henni mun reiða af. Þetta er veturgömul rolla og hefur sjálfsagt verið í góðum holdum þegar veðrið skall á. Það var lamb hjá henni og það var nýdautt. Ég giska á að það hafi drepist fyrir 3-4 dögum,“ sagði Birgir.

Um síðustu helgi fannst lambhrútur frá bænum Litlu-Reykjum í Reykjahverfi á lífi, en hann hafði verið 40 daga fastur í fönn.

Birgir sagðist vona að það væri ekki mikið um að enn væri fé lifandi í fönn. Það væri ömurlegt til þess að vita að skepnurnar væru að drepast úr hungri í margar vikur. Hann biður rjúpnaskyttur að hafa augun hjá sér og láta vita ef þeir finna lifandi kindur.

Birgir sagði að hann hefði fundið 15-17 dauðar kindur eftir óveðrið, en sig vantaði enn um 30 ær og um 50 lömb. Þetta er um 11-12% af fjárstofninum.

Birgir setti í haust á 70-75 lambgimbrar, en í venjulegu ári hefði hann sett á 30-35 lömb. Hann keypti 19 lömb af öðrum bæjum.

Birgir sagði að enn væri talsverður snjór í giljum og gjótum þar sem féð leitaði skjóls undan veðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert