Íslandsbanki endurreiknar lán

mbl.is

Íslandsbanki hefur hafið endurútreikning á lánum einstaklinga og fyrirtækja sem bankinn telur að falli undir dóma Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október sl. Um er að ræða ólögmæt gengistryggð lán sem lántakar hafa greitt af í samræmi við gildandi skilmála á hverjum tíma.

Það er mat bankans að dómurinn frá 18. október taki einnig til ákveðinna lána sem tekin voru til skemmri tíma en þau sem reyndu á í dómunum og hefur bankinn því að auki hafið endurútreikning á ólögmætum gengistryggðum bílalánum og bíla- og kaupleigusamningum. Samkvæmt bráðabirgðaúttekt er samtals um að ræða að minnsta kosti 6.000 lán/samninga, segir í tilkynningu frá bankanum.

„Dómurinn frá 18. október varpar frekara ljósi á með hvaða hætti lán skulu endurreiknuð og leysir þannig ákveðna óvissu. Óvissu er þó ekki að fullu eytt þar sem enn á eftir að fá leyst úr nokkrum álitaefnum fyrir dómstólum, t.a.m. varðandi lán sem ekki hafa verið í skilum. Meðan beðið er niðurstöðu varðandi þessi álitamál mun Íslandsbanki hraða þeirri vinnu sem snýr að bankanum eins og frekast er kostur.

Þann 9. júní s.l. kvað Hæstiréttur úr um að húsnæðislán Íslandsbanka í erlendri mynt væri löglegt erlent lán. Hafði Íslandsbanki þá þegar endurreiknað öll húsnæðislán í erlendum gjaldmiðlum sem og öll erlend lán sem tryggð voru með veði í íbúðarhúsnæði og þar með gengið lengra í endurreikningi erlendra húsnæðislána en lög frá Alþingi kváðu á um. Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar frá 15. febrúar og 18. október sem tóku til fullnaðarkvittana vegna ólögmætra lána munu dómarnir ekki eiga við um stærstan hluta húsnæðislána Íslandsbanka.

 Íslandsbanki mun halda þeim viðskiptavinum bankans sem endurútreikningurinn snertir upplýstum um framgang mála. Greiðsluseðlar ofangreindra lána verða sendir út með venjubundnum hætti. Bankinn áréttar  að lántakendur fyrirgera ekki mögulegum betri rétti sínum þrátt fyrir áframhaldandi greiðslur af lánum sem fara í endurútreikning enda verði fullt tillit tekið til þess við leiðréttingu eftirstöðva,“ segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert