Barist verður um nýja og gamla Ísland

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpaði flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í dag.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ávarpaði flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag að Sjálfstæðisflokkurinn væri og yrði höfuðandstæðingur jafnaðarmanna. „Samfylkingin vill áfram nýja Ísland en Sjálfstæðisflokkurinn hið gamla,“ sagði Jóhanna á fundinum.

Jóhanna sagði við flokksmenn sína að Samfylkingin gæti svo sannarlega borið höfuðið hátt núna þegar líður að lokum þessa kjörtímabils. „Í næstu kosningum verður kosið um það hvort þjóðin vill halda áfram á þeirri braut sem við jafnaðarmenn höfum nú markað í átt til nýja Íslands, eða hvort horfið verður til baka til gamla Íslands áranna fyrir hrun,“ sagði Jóhanna.

Vill stjórnarskrá sprottna úr „jarðvegi dagsins í dag“

Jóhanna sagði að með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um síðustu helgi hefði verið stigið risavaxið skref í því stóra baráttumáli jafnaðarmanna að þjóðin fengi nýja stjórnarskrá, „nútímalega og sprottna úr íslenskum jarðvegi dagsins í dag“.

„Þjóðinni hefur nú tekist, það sem þingheimi hefur mistekist allt frá lýðveldisstofnun, að móta Íslandi nýja stjórnarskrá í stað þeirra sem samþykkt var við lýðveldisstofnun til bráðabirgða. 

Þessi niðurstaða þjóðarinnar er fengin í einu lýðræðislegasta mótunarferli sem nokkurn tíma hefur verið reynt í öllum tilraunum til að breyta stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun. Sú staðreynd gerir vandaða niðurstöðuna enn ánægjulegri en ella í mínum huga,“ sagði Jóhanna.

Jóhanna vék að nýlegum dómi Hæstaréttar og sagði: „Í ljósi nýjasta dóms Hæstaréttar eru allar grundvallarforsendur varðandi útreikningana komnir á borðið og því ekki eftir neinu að bíða með endurreikning lánanna – a.m.k. hvað varðar heimilin og öll smærri fyrirtæki landsins. Frekari undansláttur fjármálastofnana varðandi þessa útreikninga verður ekki liðinn – lánin þarf að endurreikna strax!“

Boðaði átök við Sjálfstæðisflokkinn um ríkisfjármál

Jóhanna sagði að í kosningabaráttunni yrði tekist á um hvort skera ætti meira niður í ríkisfjármálum eða ekki. Hún sagðist ekki telja að hægt væri að ganga lengra í niðurskurði.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt það alveg skýrt, að komist þeir til valda muni þeir ráðast í verulegan niðurskurð, að ekki sé nægjanlega skorið niður á fjárlögum og þekki ég þá rétt verður velferðarkerfið þar helst undir.

Það blasir við öllum að slíkur niðurskurður verður mjög sársaukafullur. Við erum einfaldlega komin inn að beini í ríkisrekstrinum eftir aðhaldsaðgerðir undangenginna ára.  
Það blasir einnig við að stórfelldur niðurskurður á ríkisútgjöldum mun bitna mest á þeim sem síst skyldi, öldruðum, öryrkjum, atvinnulausum, skuldsettum heimilum og millitekjuhópum eða þeim sem starfa eða sækja þjónustu velferðarkerfisins – heilbrigðisstofnunum, skólum eða öðrum samfélagslegum verkefnum okkar.   

Slíkur niðurskurður  getur aldrei orðið annað en leiftursókn gegn lífskjörum þeirra sem síst skyldi,“ sagði Jóhanna.

Afdrifarík ákvörðun um ESB á næsta kjörtímabili

Jóhanna sagði að ein afdrifaríkasta ákvörðun þjóðarinnar á næsta kjörtímabili myndi lúta að mögulegri aðild Íslands að ESB. „Þar er um slíka hagsmuni að tefla fyrir heimili og fyrirtæki þessa lands að fátt eitt mun breyta eins miklu um lífskjör á Íslandi næstu áratugina og sú ákvörðun.

Enn er ósamið um nokkra mikilvæga kafla í ferlinu, svo sem í gjaldmiðlamálum og sjávarútvegsmálum, en það sem þegar hefur komið fram í viðræðunum gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um að samningamönnum okkar takist að ljúka góðum samningi fyrir Ísland.

Öll þekkjum við þá stórauknu möguleika sem aðild að ESB myndi færa ungu fólki og vísindasamfélaginu, þau hagstæðari rekstrarskilyrði sem fyrirtæki myndu njóta, bæði til fjárfestinga hér á landi og ekki síður til að sækja fram á nýja markaði.
Og öll þekkjum við þær samfélaglegu umbætur, frið og farsæld sem ESB hefur haft í för með sér og hafa nú orðið til þess að sambandinu hafa verið veitt friðarverðlaun Nóbels. Allt mælir þetta með aðild Íslands að ESB þegar til framtíðar er litið.

Möguleg aðild að ESB og upptaka evru er háð því að Samfylkingin verði áfram í forystu við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabili. Samfylkingin er og hefur verið brjóstvörn allra þeirra sem hafa viljað láta á aðild að ESB reyna. Vegna Samfylkingarinnar erum við komin þangað sem við erum komin í því ferli,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert