Jón svarar engu um framboð

Jón Bjarnason alþingismaður
Jón Bjarnason alþingismaður mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Aðalfundur kjördæmisráðs VG í NV-kjördæmi samþykkti í dag að efna til póstkosningar um val á framboðslista flokksins vegna kosninga næsta vor. Jón Bjarnason, alþingismaður og oddviti flokksins í kjördæminu, hefur ekki gefið neina yfirlýsingu um hvort hann ætli að sækjast eftir setu á listanum.

Á aðalfundinum var ákveðið að efna til forvals meðal félagsmanna VG í kjördæminu í samræmi við reglur flokksins. Kosningunni á að ljúka 27. janúar.

Enginn sem sótti aðalfundinn lýsti yfir framboði á fundinum, en Lárus Ástmar Hannesson , formaður kjördæmisráðs, sagði í samtali við mbl.is, að tveir hefðu þegar lýst yfir framboði, Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður og Lárus Ástmar Hannesson .

Jón Bjarnason sagði í samtali við mbl.is að þetta hefði ekki verið staður né stund til að lýsa neinu yfir um framboðsmál. Hann vildi ekki tjá sig neitt um hvað hann ætlaði að gera en sagðist vera á fullu í pólitík.

VG fékk góða kosningu í NV-kjördæmi í síðustu kosningum og náði þremur mönnum á þing, Jóni Bjarnasyni, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni. Ásmundur Einar yfirgaf flokkinn á kjörtímabilinu og gekk til liðs við Framsóknarflokkinn. Jón hefur leitt flokkinn í kjördæminu frá því það varð til árið 2003. Hann var áður leiðtogi flokksins í Norðurlandskjördæmi vestra frá 1999.

mbl.is

Bloggað um fréttina