Hækkar byggingarkostnað um 10-20%

Stúdentagarðar við HÍ.
Stúdentagarðar við HÍ. mbl.is/Jim Smart

Stúdentaráð Háskóla Íslands tekur undir þær áhyggjur sem Samtök iðnaðarins hafa lýst yfir varðandi nýja byggingarreglugerð. Breytt byggingarreglugerð torveldar fyrirtækjum að ráðast í nýbyggingar þar sem kostnaður við framkvæmdirnar hefur hækka svo um munar (eða um 10-20%).

„Stúdentaráð harmar að jafn róttæk byggingarreglugerð hafi verið samþykkt af stjórnvöldum á jafn erfiðum tímum og raun ber vitni,“ segir í ályktun frá ráðinu.

„Námsmenn og ungt fólk yfir höfuð er þegar að sligast undan síhækkandi leiguverði og fæstir sjá fram á að geta fest kaup á fyrstu eign í nánustu framtíð. Þörfin og eftirspurnin eftir húsnæði er gríðarleg líkt og 900 manna biðlisti á Stúdentagarðana gefur skýrt til kynna. Forsvarsmenn Félagsstofnunar Stúdenta hafa þegar borið okkur þær fregnir að vegna löggjafarinnar mun leiguverð á nýjum Stúdentagörðum hækka umtalsvert frá því sem fyrst var reiknað með.“

Stúdentaráð segir að ljóst sé að mikil uppbygging þurfi að eiga sér stað á næstu misserum til að mæta þeirri eftirspurn sem er fyrir hendi. Stúdentaráð telur það einnig mikið áhyggjuefni ef að leiguhúsnæði verði einungis á færi þeirra efnameiri við Háskóla Íslands.

„Nauðsynlegt er að ungu fólki, sem kýs að stunda nám sitt á Íslandi, verði gert kleift að stunda sitt nám, lifa sínu lífi og gegna sínum skyldum sem samfélagsþegnar án þess þó að vera skuldsett upp fyrir haus áður en haldið er út á vinnumarkaðinn. Það er mikið umhugsunarefni hvernig líf við viljum bjóða ungu fólki og námsmönnum og því er afar brýnt að regluverkið hamli ekki nauðsynlegri uppbyggingu,“ segir í ályktuninni.

Stúdentaráð krefst því þess að Félagsstofnun Stúdenta fái að njóta ákveðinnar undanþágu og geti þannig gert uppbyggingu stúdentaíbúða betur mögulega svo að hátt leiguverð komi ekki í bakið á grunlausum stúdentum.

mbl.is

Bloggað um fréttina