Ekki óhóflegur kostnaður við Orra

Sveinn Arason, Kristín Kalmansdóttir og Ingunn Ólafsdóttir kynntu skýrslu Ríkisendurskoðunar …
Sveinn Arason, Kristín Kalmansdóttir og Ingunn Ólafsdóttir kynntu skýrslu Ríkisendurskoðunar um Orra. mbl.is/Kristinn

Kristín Kalmansdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðunar, segist ekki sjá að kostnaður við fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins (Orra) hafi verið óhóflegur. Rekstur kerfisins kostaði 584 milljónir í fyrra, en það ár nam símakostnaður ríkisins 1.083 milljónum.

Ríkisendurskoðun kynnti á blaðamannafundi í dag skýrslu Ríkisendurskoðunar um innleiðingu og kostnað við Orra, en skýrslan var birt á vef Ríkisendurskoðunar í gær.

Heildarkostnaður við Orra á árunum 2001-2011 nam 5,9 milljörðum, en þar af nam stofnkostnaður 1,5 milljörðum. Samkvæmt kaupsamningi átti kostnaðurinn að vera einn milljarður. Kostnaðurinn fór því 41% fram úr áætlun miðað við verðlag ársins 2001. Engin áætlun var gerð á sínum tíma um rekstrarkostnað Orra.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að stofnkostnaður við Orra fór fram úr áætlun, þar skiptir ekki síst máli að innleiðing kerfisins tók lengri tíma en áætlað var. Samkvæmt kaupsamningi átti ríkið rétt á bótum ef tafir yrðu á afhendingu Orra sem sannanlega mættu rekja til Skýrr. Ríkið og Skýrr urðu hins vegar sammála um að tafir á innleiðingu væru ekki eingöngu á ábyrgð Skýrr og því ætti ríkið ekki rétt á bótum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er bent á að rekstarkostnaður vegna Orra á árinu 2011 nam 584 milljónum. Það ár greiddi ríkið 1.083 milljónir í símakostnað og 1.657 milljónir í rafmagn og hita.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi benti á blaðamannafundinum í dag á að 12 sjúkrahús í Danmörku hefðu tekið upp nýtt fjárhagsupplýsingakerfi og kostnaður við það hefði verið 5,2 milljarðar. Rekstrarkostnaður við fjárhagsupplýsingakerfi bankanna væri um 15 milljarðar á ári.

Þinginu veitt misvísandi upplýsingar í upphafi

Þegar nýtt fjárhags- og mannauðskerfi var fyrst kynnt fyrir Alþingi árið 2001 kom fram að kostnaður við kerfið yrði 160 milljónir.  Samt lá fyrir í fjármálaráðuneytinu á þeim tíma áætlun um að kostnaðurinn yrði um 800 milljónir. Ástæðan fyrir því að ráðuneytið setti ekki þá tölu inn í fjárlagafrumvarp ársins 2001 er sú að ráðuneytið vildi ekki gefa neinar upplýsingar á þeim tíma sem væntanlegir bjóðendur gætu hugsanlega nýtt sér þegar kerfið yrði boðið út.

Ríkisendurskoðun gagnrýnir í skýrslu sinni að Alþingi hafi ekki verið upplýst um kaupverð Orra fyrr en í október 2001. Upplýsingar til þingsins hafi því verið misvísandi. Í fjárlagafrumvarpinu 2002 kemur hins vegar fram að áætlaður kostnaður við innleiðingu og rekstur Orra á árunum 2001-2003 er 1,3 milljarðar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að kostnaður vegna Orri hefur alltaf verið innan fjárheimilda nema árin 2001 og 2004. Árið 2011 var uppsafnaður afgangur fjárheimilda vegna Orra 164 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert