Frumvarp um afborganir gengislána

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins hyggst leggja fram frumvarp þess efnis að lántakar hafi rétt til að greiða af lánum sínum með föstum greiðslum sem nema 5.000 kr. af hverri upprunalegri milljón lánsins og teljist því í skilum uns niðurstaða liggur fyrir í Hæstarétti um hin ýmsu ágreiningsefni. 

Í fréttatilkynningu frá Eygló segir að fullkomin óvissa hafi verið uppi um úrlausn á ágreiningi um gengistryggð lán. Mikilvægt sé að eyða þeirri óvissu sem fyrst. 

 Allir verði að hafa hagsmuni af því að ljúka málinu og fá niðurstöðu um endurútreikning gengistryggðra lána. Þann hvata hafi vantað og ferlið dregist, jafnvel þannig að hagsmunir fjármálafyrirtækjanna hafi legið í að draga málin á langinn og þreyta lántakendur. 

 „Því hyggst ég leggja fram lagafrumvarp þess efnis að lántakar hafi rétt til að greiða af lánum sínum með föstum greiðslum sem nema 5.000 kr. af hverri upprunalegri milljón lánsins og teljist því í skilum uns niðurstaða liggur fyrir í Hæstarétti um hin ýmsu ágreiningsefni.   Jafnframt er ítrekaður sá skilningur að lántaki getur aldrei hafa verið í vanskilum með lán eða lánasamninga, sem þessi lög taka til, þar sem þau hafi verið með ólögmæta skilmála. Inni lántaki af hendi að lágmarki þá greiðslu sem hér er lagt til, telst hann vera í fullum skilum með afborganir af láninu,“ segir Eygló í fréttatilkynningunni.

Fjármálafyrirtækin þurfa að leggja fram tryggingar fyrir hugsanlegum ofgreiðslum til lántaka annars muni viðbótar greiðslur leggjast inn á handveðsreikning í  Seðlabanka Íslands. Er þetta lagt til í ljósi reynslunnar af nauðasamningum Avant.

Jafnframt er lagt til að dráttarvextir reiknist af ofgreiddum kröfum 30 dögum eftir gildistöku laganna.  Lántakar munu ekki þurfa að senda sérstakt kröfubréf þess efnis.

Að lokum er lagt til að fjármálafyrirtæki verði skylduð til að láta viðskiptavini sína fá upplýsingar um greiðslusögu lána og forsendur endurútreiknings ef viðskiptavinurinn þess óskar.  Þetta er gert í ljósi þess að ábendingar hafa borist um að beiðnum þess efnis hafi verið hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert