Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar skilar skýrslu

Landakotsskóli.
Landakotsskóli. mbl.is/Jim Smart

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, sem var skipuð til að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna framkominna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot, mun kynna skýrslu sína á morgun.

Nefndin var skipuð í lok ágúst í fyrra. Róbert Spanó, lagaprófessor við HÍ, sá um skipan nefndarinnar og í henni sitja Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari sem er formaður nefndarinnar, Hrefna Friðriksdóttir, dósent í fjölskyldurétti við lagadeild HÍ, og Jón Friðrik Sigurðsson, yfirsálfræðingur á geðsviði Landspítalans og prófessor við HÍ og HR.

Rannsóknin tók til starfsmanna Landakotsskóla til ársins 2005 og á nefndin að leggja mat á hvort um mistök, vanrækslu eða vísvitandi þöggun hafi verið að ræða af hálfu vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar.

Einnig mun nefndin koma með ábendingar og tillögur um breytingar á starfsháttum kirkjunnar. Hún hafði óheftan aðgang að öllum þeim heimildum, gögnum og skjölum sem gætu varpað ljósi á rannsóknina.

Var þeim, sem telja sig hafa sætt ofbeldi af hálfu starfsmanna Landakotsskóla, gefinn kostur á viðtali og að skila skriflegri greinargerð. Komi fram grunsemdir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot verður það tafarlaust tilkynnt lögreglu.

Nefndin átti að skila niðurstöðum eigi síðar en 1. september 2012. Skýrslan verður hins vegar kynnt blaðamönnum á morgun, 2. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert