Lítil merki um úrbætur hjá kaþólsku kirkjunni

Rannsóknarnefndin telur að kaþólska kirkjan á Íslandi eigi mikið ógert …
Rannsóknarnefndin telur að kaþólska kirkjan á Íslandi eigi mikið ógert í sambandi við meðferð mála sem snúa að kynferðislegu og öðru ofbeldi gegn börnum. mbl.is/ÞÖK

Rannsóknarnefnd um kaþólsku kirkjuna á Íslandi telur lítil merki sjást um að úrbætur hafi verið gerðar af hálfu kaþólsku kirkjunnar varðandi meðhöndlun mála vegna kynferðislegs eða annars konar ofbeldis gegn börnum. Kirkjan eigi eftir að leggja á sig töluverða vinnu í þessum efnum.

Rannsóknarnefndin átti m.a. að koma með tillögur um úrbætur varðandi viðbrögð kaþólsku kirkjunnar í þessum málum. Í skýrslunni er farið yfir hvernig kirkjan brást við kvörtunum sem henni bárust. Niðurstaða nefndarinnar er að kirkjan hafi þaggað niður mál sem vörðuðu andlegt ofbeldi innan Landakotsskóla. Biskuparnir Frehen, Jolson og Gijsen hafi veigrað sér við eða vikið sér undan því að hafa fullnægjandi eftirlit með starfsemi Landakotsskóla og sumarbúðum sem reknar voru á vegum skólans.

Nefndin er ekki eins afgerandi þegar hún fjallar um viðbrögð kirkjunnar við ásökunum um kynferðislegt ofbeldi.  Nefndin telur „óvarlegt að álykta með beinum hætti að tilteknir starfsmenn kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hafi vísvitandi reynt að bæla niður ásakanir, reynt að fá einhvern með beinum hætti til að þegja um tiltekin mál eða reynt að hafa áhrif á að ekki yrði lengra farið með tiltekin mál um kynferðislegt ofbeldi.“

Nefndin rekur hins vegar í skýrslu sinni að biskupar hafi fengið upplýsingar um að séra George, fyrrverandi skólastjóri, hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Biskuparnir Jolson og Gijsen hafi hins vegar veigrað sér við því að taka á grun um brot eða taka ásakanir á hendur George föstum tökum.

Kaþólska kirkjan á mikið ógert

Þegar kemur að spurningunni um hvernig kaþólska kirkjan tekur á þessum málum í dag er ljóst að rannsóknarnefndin telur að kaþólska kirkjan eigi mikið ógert.

„Þrátt fyrir þetta hafa lítil merki sést um úrbætur af hálfu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og er það mat rannsóknarnefndarinnar að töluverð vinna sé eftir áður en hægt verði að segja að kirkjan sé í stakk búin til að takast á við mál vegna kynferðislegs eða annars konar ofbeldis gegn börnum,“ segir í skýrslunni.

Það er ýmislegt sem rannsóknarnefndin bendir á í þessu sambandi. Kirkjan þurfi m.a. að bæta skráningu skjala. Nefndin telur „varhugavert fyrir kaþólsku kirkjuna á Íslandi að leggja til grundvallar þá þröngu túlkun á skyldu til að skrá og varðveita upplýsingar um meint ofbeldisbrot, sem fram kemur í andmælabréfi lögmanns kirkjunnar dagsettu 17. október 2012.“

Í viðtölum við presta kirkjunnar kemur fram að þeir hafi enga kynningu fengið á íslenskum lögum og reglum af hálfu kirkjunnar. Til samanburðar nefndu nokkrir að á Englandi hefðu þeir fengið ítarlega fræðslu um lög landsins, verklagsreglur og framkvæmd þeirra.

Nefndin lýsir í skýrslunni áhyggjum af lítilli þekkingu presta á íslenskum lögum og m.a. helstu ákvæðum barnalaga.

Kaþólski biskupinn fylgi orðum sínum eftir

Rannsóknarnefndin telur nauðsynlegt fyrir kaþólsku kirkjuna „að staldra við og skoða alvarlega hvernig prestar í dag telja rétt að bregðast við ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum“. Kirkjan þurfi að setja sér verklagsreglur um viðbrögð við ofbeldi og bendir í því sambandi á reglur sem kaþólska kirkjan í Danmörku hafi sett. Í reglunum þurfi að byggja á virðingu fyrir þeim sem segja frá.

Rannsóknarnefndin telur brýna nauðsyn að núverandi biskup kaþólsku kirkjunnar fylgi með markvissum hætti eftir fullyrðingum sínum að kirkjan lúti landslögum og sjái til þess að allir fari eftir viðurkenndri túlkun barnaverndarlaga um tilkynningu starfstétta, þar með talið presta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert