Tekjur vegna álvers ekki í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar

Ný þjóðhagspá gerir ekki ráð fyrir rekstri álvers í Helguvík …
Ný þjóðhagspá gerir ekki ráð fyrir rekstri álvers í Helguvík fyrr en 2014. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þessar upplýsingar byggjast ekki á því að þeir hafi haft samband við forsvarsmenn Century Aluminum eða Norðuráls,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, um nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar þar sem ekki er gert ráð fyrir álveri í Helguvík fyrr en á árinu 2014.

Nú munu Íslenskir aðalverktakar [ÍAV] vinna að því að loka húsinu og lítur út fyrir að þeir láti af störfum í nóvember.

Stóð ekki til að gera meira í bili

„Aðalverktakarnir hafa verið með í að byggja upp stálgrindina og loka húsinu. Í sjálfu sér hefur ekki staðið til að halda lengra þegar því væri lokið. Það í sjálfu sér er engin ný frétt fyrir okkur,“ segir Árni.

Hann segist ganga út frá því sem forsvarsmenn Norðuráls segi þeim og að það hafi engar breytingar orðið á þeirri lýsingu. „Þeir telja að samningar um orku við HS-orku séu efnislega komnir en það sé verið að fara yfir tæknileg atriði sem þeir hafa nefnt og ég hef nú ekki heyrt annað en að báðir séu að segja það sama þó það sé einhver mismunandi orðanotkun í því þannig að ég tel engar yfirlýsingar hafa komið til okkar um neitt annað,“ segir Árni.

Helguvíkurhöfn er erfið fyrir rekstur Reykjanesbæjar

„Við gerum ráð fyrr því að á miðju ári séu framkvæmdirnar komnar aftur af stað. Við höfum reyndar ekki sett það inn í okkar fjárhagsáætlanir. Við erum löngu hætt að ætla það inn í okkar fjárhagsáætlun, sveitarfélagsins. En þetta er það sem að við okkur er sagt og af þeim sem eiga að fjalla um málið.“

-Er þá ekki gert ráð fyrir neinum tekjum vegna Helguvíkur í næstu fjárhagsáætlun?

„Það lá fyrir við undirbúning fyrir fjárhagsáætlun næsta árs að við höfum ekki gert það. Við höfum ekki ætlað að byggja á því. Það sama á reyndar við um kísilver og aðrar framkvæmdir sem við erum vongóð um en við höfum ekki talið okkar aðstæður leyfa okkur að setja það inn í fjárhagsáætlun sem tekjuaukandi aðgerðir.“

-Hvernig gengur annars vinnan við fjárhagsáætlunina?

„Við erum að leggja fram til fyrri umræðu áætlunina og þar náum við endum saman í bæjarsjóði en það er alveg ljóst að Helguvíkurhöfn er okkur mjög þung og þessar tafir sem þar hafa orðið hafa náttúrlega kallað á endurfjármögnun þar sem fjármagnskostnaður er mikill en sáralitlar tekjur að koma inn. Það er okkur mjög þungt og verður áfram þungt og við erum að gera ráð fyrr því á næsta ári að það verði sami þungi í því.“

-Það hlýtur því að liggja á að framleiðsla hefjist í Helguvík?

„Það liggur gríðarlega mikið á því að hér fái fólk vinnu. Ég var að sjá það á föstudaginn að það virðist vera að atvinnulausum sé að fjölga um 100 á milli mánaða frá september til október. Þannig að það er nú ekki eins og botninum þar hafi verið náð.“

Forstjóri Century telur framkvæmdir geta hafist í upphafi árs

Árni segir að Michael A. Bless, forstjóri Century Aluminum, hafi sagt nýlega á hluthafafundi að hann vonaðist til að samningar gætu klárast innan næstu tveggja mánaða um orku og að þá gætu framkvæmdir hafist að nýju í upphafi næsta árs. Það séu í raun nýjustu fregnir af málinu frá álfyrirtækinu.

Tengdar fréttir:

Telja að framkvæmdir í Helguvík tefjist

Höfnin óþægur ljár í þúfu

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Helguvíkurhöfn er erfið fyrir rekstur Reykjanesbæjar.
Helguvíkurhöfn er erfið fyrir rekstur Reykjanesbæjar. mbl.is/Arnór Ragnarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert