Mætti spara mikið með frjálsum hugbúnaði

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef marka má reynslu Menntaskólans í Reykjavík má gera ráð fyrir að spara mætti verulegar fjárhæðir með því að innleiða frjálsan hugbúnað í stofnunum ríkis og sveitarfélaga. Ekki hefur hins vegar verið lagt mat á það hversu háar upphæðir gætu sparast í heild í því sambandi eða tekið saman hversu mikið hafi sparast til þessa vegna notkunar á slíkum hugbúnaði.

Þetta kom fram í svari Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, við fyrirspurn frá Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni Framsóknarflokksins, en hann innti ráðherrann eftir því hvernig miðaði að innleiða og fylgja stefnu um frjálsan og opinn hugbúnað sem ríkisstjórn Íslands hefði samþykkt í mars 2008.

„Þegar vel tekst til má ná umtalsverðum sparnaði og benda má á að Menntaskólinn í Reykjavík telur að verulegur sparnaður hafi náðst. Sparnaðurinn felst í því að ekki þarf að greiða leyfisgjöld af hugbúnaði, hægt er að nýta tölvubúnað mun lengur en áður og rekstrarkostnaður er lægri. Telur skólinn að sparnaðurinn geti verið nálægt 10 millj. kr. á ári,“ segir í svarinu.

Þá sagði Ögmundur ennfremur að fjöldi opinberra aðila notaði í dag frjálsan hugbúnað að einhverju marki og þó nokkur hluti notaði frjálsan hugbúnað nær eingöngu. Eru þar nefndir nokkrir framhaldsskólar, Fjöldmiðlanefnd, Landgræðsla ríkisins og Reykjavíkurborg.

Svar innanríkisráðherra í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert