Vildi að páfi veitti séra Georg viðurkenningu

Rannsóknarnefndar um kaþólsku kirkjuna skilaði skýrslu sinni fyrir helgi.
Rannsóknarnefndar um kaþólsku kirkjuna skilaði skýrslu sinni fyrir helgi. Morgunblaðið/Kristinn

Þrátt fyrir að Jóhannes Gijsen, sem var biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi 1996-2007, hafi strax og hann tók við embætti fengið upplýsingar sem gáfu til kynna að séra Ágúst George hefði gerst sekur um kynferðisbrot lagði hann til við Páfagarð 1998 að honum yrði veitt viðurkenning.

Þegar Gijsen tók við embætti lét séra Jakob Roland, prestur kirkjunnar, hann fá bréf sem fyrrverandi biskup hafði beðið um að yrði varðveitt í skjalasafni kaþólsku kirkjunnar. Gijsen kynnti sér efni bréfsins og lét síðan eyðileggja það. Gijsen sagði við rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar að maðurinn sem skrifaði bréfið hefði „talið sig muna að hann hefði kannski verið beittur kynferðislegu ofbeldi af presti á Íslandi þegar hann var ungur drengur“. Gijsen sagði að hann hefði í framhaldinu rætt við manninn og hann hefði sagt að hann teldi kannski að snerting séra Georges hefði ekki alltaf verið viðeigandi, en að þeir hefðu í sameiningu komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um kynferðislegt ofbeldi að ræða.

Rannsóknarnefndin tekur að Gijsen hafi gert mistök með því að eyðileggja bréfið og vanrækt skyldur sínar. Ekki liggi fyrir að Gijsen hafi haft nauðsynlega sérþekkingu til að meta vitnisburð mannsins og hann hafi því vanrækt skyldu sína að tryggja að fram færi sjálfstæð rannsókn með aðkomu sérfræðinga. Hann hefði jafnframt átt að grípa til nauðsynlegra aðgerða meðan á rannsókn stóð.

Vildi að Páfagarður veitti séra George viðurkenningu

Árið 1998, tveir árum eftir að Gijsen fékk þetta bréf, skrifaði hann Páfagarði bréf og lagði til að séra George yrði veitt viðurkenning. Hann skrifaði einnig bréf til séra Georges árið 1998, þar sem fjallað var um starf hans í skólanum, séra George lofaður fyrir gott starf í lok starfsferils og beðinn um að gegna áfram tilteknum trúnaðarstörfum. Bréfið lýsir vel þeirri ábyrgð sem séra George var talinn bera á skólastarfinu, en þar segir m.a.:

„Í fjölmörg ár hefur kjarni trúboðsstarfs þíns á Íslandi verið menntun barna í Landakotsskólanum. Skólinn hefur verið „heimur þinn“ – eða réttara sagt, hann hefur verið „fjölskylda þín“ og þú hefur verið „faðir þeirrar fjölskyldu“. Þú hefur gert skólann að því sem hann er: Einn besti barnaskóli á Íslandi. Það getur fjöldi manns í landinu vottað – með réttu. Þú hefur hafið hann í háan gæðaflokk, bæði hvað hið ytra og innra snertir. Það er þér að þakka hversu gott líf er í honum og vel fyrir honum séð og hann samsvarar öllum kröfum nútímans.“

Spyrja um rétt „þeirra látnu einstaklinga sem ásakanirnar beinast að“

Eftir að ásakanir um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi komu fram opinberlega á síðasta ári tjáði Guðrún Ögmundsdóttir, sem stýrir fagráði innanráðuneytisins um kynferðisbrot, sig um málið þar sem hún gagnrýndi viðbrögð kirkjunnar.

Þáverandi lögmaður kaþólsku kirkjunnar skrifaði í tilefni af ummælum Guðrúnar opið bréf fyrir hönd biskups til innanríkisráðherra 21. júní 2011. Er þar meðal annars farið yfir það sem átti sér stað á fundi í innanríkisráðuneytinu, sagt að biskup hafi án tafar brugðist við bréfi einstaklings er varðaði kynferðislegt áreiti kaþólsks prest, áréttað að kirkjan taki ásakanir af þessu tagi alvarlega og hún sé fús til samvinnu, en gagnrýnt að fulltrúi ráðuneytisins saki biskup um aðgerðarleysi og þögn í fjölmiðlum í stað þess að leita eftir upplýsingum og beina fyrirspurnum bréflega til biskups. Óskað var eftir fundi
með fagráði og eftir upplýsingum um þau mál sem rædd höfðu verið á fundi í ráðuneytinu. Undir lok bréfsins segir:

„Það er hvorki hlutverk stjórnvalda né kirkjunnar heldur dómstóla að undangenginni lögreglurannsókn að skera úr um sekt eða sakleysi þeirra sem sökum eru bornir. Umfjöllun í fjölmiðlum um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar gefur tilefni til að árétta þetta og jafnframt að spyrja hver sé réttur þeirra látnu einstaklinga sem ásakanirnar beinast að.“

Guðrún Ögmundsdóttir afhenti rannsóknarnefndinni afrit af svarbréfi innanríkisráðherra en í því segir: „Ég tek undir það með yður að mál af þessu tagi eru lögreglumál og eiga að fara sína leið í gegnum réttarkerfið. Það firrir hins vegar ekki ábyrgð þær stofnanir eða samtök sem í hlut eiga ef brotin hafa farið fram innan þeirra vébanda og í skjóli þess trausts sem þar á að ríkja. Það er eðlilegt að reisa þá kröfu að tekið sé á málum af festu og allt gert sem hægt er til að upplýsa brotin og bæta fyrir þau eftir því sem kostur er. Sú staðreynd að þeir einstaklingar sem í hlut eiga eru látnir getur ekki orðið til þess að mál séu látin liggja í þagnargildi. Af hálfu ráðuneytisins snýst málið ekki um einstaklinga, heldur um stofnun.“

Skýrsla rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar

Johannes Gijsen.
Johannes Gijsen.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert