Veiti álit um bótarétt þolenda kynferðisofbeldis

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hefur í dag skipað Eirík Elís Þorláksson, hæstaréttarlögmann, og sérfræðing við lagadeild Háskólans í Reykjavík, April Frigge mannfræðing og Skúla Guðmundsson lögfræðing til að veita forstöðu nýju fagráði kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Hlutverk og markmið fagráðsins er eftirfarandi:

a) Að veita álit um bótarétt þolenda kynferðisofbeldis eða annars ofbeldis innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í ljósi nýkynntrar skýrslu rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

b) Að leggja fram tillögur vegna sömu skýrslu um með hvaða hætti kaþólska kirkjan á Íslandi geti gert úrbætur í ljósi ábendinga og tillagna rannsóknarnefndarinnar um breytingar á starfsháttum kirkjunnar ef upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot. Einnig að koma með aðrar tillögur að forvörnum og öðrum úrbótum ef ástæða þykir til.

Hefur biskup óskað eftir því að fagráðið taki þegar til starfa og skili niðurstöðum eigi síðar en 1. júní 2013.

Þá mun kaþólska kirkjan á Íslandi setja á laggirnar ráð til að taka á móti ábendingum og tilkynningum ef upp koma ásakanir um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi í framtíðinni, segir í tilkynningu frá kaþólsku kirkjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert