SUS afhenti fjárlagatillögur

Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.
Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra.

Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), hefur afhent Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, fjárlagatillögur SUS vegna ársins 2013. Þetta er fjórða árið í röð sem ungir sjálfstæðismenn leggja fram fjárlagatillögur sínar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

 „Í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem kynnt var þann 11. september sl., er áfram gert ráð fyrir halla á rekstri ríkissjóðs. Ef fer sem horfir verður árið 2013 því sjötta árið í röð þar sem ríkið er rekið með tapi, með tilheyrandi kostnaði fyrir framtíðarskattgreiðendur. Allt stefnir í að samanlagður halli á rekstri ríkissjóðs á árunum 2008-2013 verður tæpir 600 milljarðar króna. Stærsti hluti þess halla, eða um 380 milljarðar króna, hefur myndast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Reikningurinn verður sendur framtíðarskattgreiðendum sem munu þurfa að taka á sig óábyrgan rekstur vinstri manna á fjármálum ríkisins.

 Stjórn SUS telur sem fyrr að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins, án niðurskurðar í heilbrigðis-, velferðar- eða menntamálum, og leggur hér til að útgjöld ríkisins verði lækkuð í það minnsta um 84,2 milljarða króna sem er nokkuð meira en SUS hefur lagt til fyrri ár. Verði farið að tillögum SUS má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs án skattahækkana vinstristjórnarinnar auk þess sem hægt væri að lækka skatta og hefja niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs.

 Sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna eru settar fram á hugmyndafræðilegum grunni í þeim tilgangi að benda á hvernig ríkisreksturinn gæti verið betri og einfaldari en hann er nú. Þannig er tillögunum ætlað að gefa mynd af því hvernig haga mætti ríkisfjármálum betur. Líta má á tillögurnar sem nokkurs konar hugmyndabanka, en ekki heildstæðar tillögur. Fáir eru sammála öllum tillögunum, en allir ættu að vera sammála einhverjum þeirra,“ segir í tilkynningu frá SUS.

mbl.is

Bloggað um fréttina