„Á von á breyttum áherslum Obama“

Barack Obama forseti Bandaríkjanna í nótt er hann fagnaði sigri.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna í nótt er hann fagnaði sigri. AFP

„Lokaspretturinn var harðari en ég átti von á og það er áhugavert hversu mjótt var á mununum í sumum ríkjum þar sem talið var að annar hvor frambjóðandinn ætti vísan sigur,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Hún á von á breyttum áherslum Obama á þessu síðara kjörtímabili hans og segir bilið á milli demókrata og repúblikana hafa breikkað.

„Það kom ekki á óvart að Obama hefði sigrað, nýjustu kannanir sýndu að fylgi hans var að sveiflast upp, en Romney var að missa fylgi. „En síðustu vikurnar voru meira spennandi en ég hafði reiknað með.“

„Það sem er áhugavert er, hversu mjótt var víða á mununum. Víða var býsna tæpt í ríkjum þar sem talið var að annar hvor frambjóðandinn ætti vísan sigur. Obama sigraði í Virginíuríki og þetta eru aðrar forsetakosningarnar í röð þar sem demókratar sigra þar. Áður var þetta ríki í hópi annarra Suðurríkja sem þóttu líklegri til að kjósa repúblikana,“ segir Silja Bára.

„Svo kemur líka á óvart hvað þetta virðist vera tæpt í Flórída.Það staðfestir það sem ég hef sagt áður. Afstaða repúblikana til kjósenda af rómönskum uppruna er að taka fylgi af þeim, því flestir reiknuðu með því að repúblikanar myndu taka Flórída núna.“

Er bilið að breikka?

En hvað með hugmyndafræði þessara tveggja flokka; demókrata og repúblikana? Af orðræðunni í kosningabaráttunni að dæma virðist bilið á milli þeirra hafa breikkað.

„Hugmyndafræði flokkanna er að vera gífurlega ólík. En sigur Obama gefur von um að Bandaríkjamenn hafi valið að endurvekja velferðarsamfélagið. Til dæmis telja sex af hverjum tíu kjósendum í Bandaríkjunum að það sé eðlilegt að hækka skatta ef fyrir því sé góð og gild ástæða, eins og t.d. velferðarmál. Þessu voru allir frambjóðendur í forkosningum Repúblikanaflokksins á móti. Þetta bendir til þess að það séu einhverjar breytingar í vændum og það að Obama heldur áfram þýðir auðvitað að þær breytingar sem hann hefur verið að reyna að koma á, eins og t.d. heilbrigðistryggingalögin fá tækifæri til að festa sig í sessi. Þetta þýðir að Bandaríkjamenn eru að horfa á pólitíska endurröðun, að Demókrataflokkurinn verði nú flokkurinn sem talar fyrir meirihlutann.“

Umdeild teboðsummæli

„Svo hafa ýmis ummæli sem áhrifamenn í Repúblikanaflokknum hafa látið falla, bent til þess að gjá sé að myndast á milli flokkanna,“ segir Silja Bára og vísar þar m.a. til ummæla Todds Akin og Richards Mourdocks , öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins frá Missouri um „löggilda nauðgun“ og að þungun í kjölfar nauðgunar sé „vilji guðs“. Báðir tilheyra Teboðshreyfingunni, hreyfingu innan hægri vængs Repúblikanaflokksins. 

„Þetta er málflutningur sem fær stuðning í þröngum hópi, En það er mjög valdamikill hópur vegna þess að þau eiga svo mikla peninga. Þau geta stillt upp frambjóðendum í forkosningum og þannig hefur flokknum verið ýtt til hægri bæði hvað varðar ríkisfjármál og félagsmál. Þessi hópur er að reyna að færa flokkinn allan í þessa átt,“ segir Silja Bára. Hún segir sigur Obama og að demókratar hafi haldið meirihluta í öldungadeildinni vega upp á móti þessum hugmyndum.

Breyttar áherslur á þessu kjörtímabili

Stundum er sagt að fyrra kjörtímabil forseta einkennist meira eða minna af undirbúningi fyrir kosningabaráttu, að ná endurkjöri. Verða áherslur Obama aðrar á þessu síðara kjörtímabili hans?  

„Líklega verður það þannig. Núna getur hann unnið að stefnumálum sínum án þess að þurfa að hafa áhyggur af endurkjöri. Hann getur orðið harðari í samningum því hann hefur ekki eins miklu að tapa, en þarf reyndar að huga að því að ná þinginu 2014.  En ég tel að hann muni vinna að því að efla velferðarkerfið, festa heilbrigðiskerfið í sessi og skilja eftir sig stofnanir sem varða varanlegur hluti samfélagsins. Svo þarf að taka til hendinni í ríkisfjármálum. Ég held að það verði nokkur þrautaganga, en hann fer vonandi að njóta góðs af þeim aðgerðum sem hann hefur þegar komið í framkvæmd,“ segir Silja Bára.

Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands.
Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands.
Barack og Michelle Obama ásamt varaforsetahjónunum Joe og Jill Tracy …
Barack og Michelle Obama ásamt varaforsetahjónunum Joe og Jill Tracy Biden. www.facebook.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert