Ísland sagt íhuga að skipta um nafn

mbl.is

Frétt sem birtist í dag í bandaríska dagblaðinu USA Today hefur valdið nokkrum titringi hjá þeim sem sjá um að markaðssetja Ísland erlendis en því er haldið fram í fréttinni að alvarlega sé í skoðun hér á landi að skipta um nafn á landinu.

Umfjöllunin tengist samkeppni sem Íslandsstofa stóð fyrir í haust í kjölfar umræðna á netinu um það hvort eitthvað annað nafn en Ísland lýsti betur upplifun einkum erlendra ferðamanna af landinu. Skýrt var tekið fram að uppátækið væri aðeins hugsað til gamans og að ekki stæði raunverulega til að breyta nafni Íslands.

Því er hins vegar meðal annars haldið fram í áðurnefndri frétt í USA Today, sem bæði birtist í pappírsútgáfu dagblaðsins í dag og á vefsíðu þess í gær, að hugmyndin sé að vinningstillagan verði send ríkisstjórn Íslands til skoðunar og að þar á bæ hafi verið tekið vel í hugmyndir um annað nafn.

Ennfremur segir að Íslendingar séu ekki vissir um það hvort um sé að ræða alvöru eða ekki og að umræða hafi skapast um málið þar sem skiptar skoðanir væru á hugmyndinni. Eru í því sambandi birtar tilvitnanir í nokkra Íslendinga þar sem þeir lýsa afstöðu sinni til málsins. Þá er tilefni mögulegrar nafnabreytingar einkum sögð vera bankahrunið 2008 en einnig nefnt til sögunnar „lágt sjálfsálit“ íslensku þjóðarinnar.

Fréttin sem birtist ekki endanlega útgáfan

Fréttin er merkt blaðamanninum Halldóri Bachmann en í samtali við mbl.is segir hann að sú útgáfa sem hafi birst hjá USA Today sé alls ekki endanleg útgáfa hennar sem hann hafi sent dagblaðinu. Nánast sé ekkert úr henni í þeirri frétt sem birtist í blaðinu fyrir utan beinar tilvitnanir sem honum sýnist vera nokkuð réttar.

Halldór segist fyrir vikið vera mjög ósáttur við það hvernig bandaríska dagblaðið hafi meðhöndlað fréttina sem síðan hafi verið merkt honum. Fréttin hafi í raun verið endurskrifuð án þess að bera það undir hann fyrst. Hann hafi sjálfur ekki vitað af þessu fyrr en fréttin birtist í blaðinu og á netinu.

Þá segir hann að ýmsir aðilar sem sjái um markaðssetningu Íslands erlendis hafi þegar haft samband við sig vegna málsins, þar á meðal Útflutningsráð, sem séu mjög ósátt við fréttina og efni hennar sem sé skiljanlegt enda fari það þvert á þá vinnu sem þessir aðilar hafi verið að sinna með því að markaðssetja landið undir nafninu Ísland.

Þess má geta að fyrir utan USA Today birtist fréttin einnig á fréttavef bandaríska dagblaðsins Detroit Free Press sem er stærsta dagblað í borginni Detroit í Bandaríkjunum en sami útgefandi er að báðum blöðunum.

Fréttin á vef USA Today

Fréttin á vef Detroit Free Press

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert