Krónurnar skila sér margfalt til baka

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra og Katrín …
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, kynntu áætlunina á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Jón Pétur

„Áhrif fjárfestingaráætlunarinnar eru náttúrulega ótvíræð. Þarna er um aukna fjárfestingu að ræða af hálfu hins opinbera. Þarna er líka um að ræða fjölgun starfa og markmiðið með þessu öllu saman er að hafa jákvæð áhrif á hagvöxt,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Hún segir ennfremur að markmiðið sé að skapa vöxt í samfélaginu. „Það styrkir auðvitað tekjugrunn ríkisins. Þannig að hver einasta króna sem þarna fer út skilar sér margfalt aftur til baka inn í ríkissjóð,“ segir Katrín.

Hún tekur fram að fjármögnun seinni hluta fjárfestingaráætlunar stjórnvalda hafi verið tryggð í gegnum arðgreiðslur frá fjármálastofnunum. Gert er ráð fyrir að arðurinn á næsta ári verði 9,6 milljarðar kr.

Fyrri hlutinn var fjármagnaður með veiðigjaldi. „Það hefur þegar komið inn í fjárlagafrumvarpið í haust. Í samgönguverkefni, rannsóknarverkefni og þróunarverkefni,“ segir Katrín

Hún tekur fram að seinni hluti fjármögnunarinnar, þar sem horft sé til eflingar vaxtagreina og fasteigna, verði kynntur í breytingum inni í fjárlagafrumvarpinu á milli umræðna.

Rökrétt að ráðstafa fénu til vaxtarverkefna

„Núna er bankakerfið að fara að skila okkur fjármunum til baka og þá finnst okkur rökrétt að ráðstafa þeim fjármunum til vaxtaverkefna. Verkefna sem skili atvinnu og skila vexti í samfélaginu,“ segir Katrín.

Hún bendir á að fjárfestingaráætlunin sem var kynnt í maí sl. hafi nú þegar verið fjármögnuð. Alls sé um að ræða 10,3 milljarða kr. en úr veiðigjöldunum komu 4,2 milljarðar og úr arði og eignasölu komi 6,1 milljarður.

Á meðal þeirra verkefna sem arðurinn verður nýttur í á næsta ári eru 500 milljónir til uppbyggingar ferðamannastaða. Katrín bendir á að gistináttagjaldið, sem sé notað til að fjármagna Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, hafi skilað heldur rýrum tekjum. „Þarna er veruleg innspýting sem getur þýtt verulega verðmætaaukningu í ferðaþjónustunni á Íslandi. Þetta eru þá einn og hálfur milljarður sem verður settur í þetta á næstu þremur árum,“ segir hún. Þá verða settar 250 milljónir í innviði friðlýstra svæða. Alls eru þetta 750 milljónir kr. á næsta ári undir liðnum ferðaþjónusta.

Undir liðnum skapandi greinar verður sett 470 milljóna viðbótarframlag í Kvikmyndasjóð á næsta ári, sem sé veruleg innspýting, 200 milljónir í Netríkið Ísland og 250 milljónir kr. í Verkefnasjóð skapandi greina. „Áhersla þessarar ríkisstjórnar er að styðja betur við hinar hugvitsdrifnu greinar. Því það er þar sem við sjáum að vöxturinn verði á næstu árum,“ segir Katrín.

Þá verður settur milljarður í Græna hagkerfið á næsta ári. Þar af munu 500 milljónir fara í svokallaðan Grænan fjárfestingarsjóð á næsta ári. „Þessi fjárfestingarsjóður mun sérstaklega styðja við verkefni sem eru á hinu græna sviði,“ segir Katrín og bætir við að heildarupphæðin nemi einum milljarði kr. á tveimur árum, þ.e. árið 2013 og 2014.

Hvað varðar fasteignir, þá verður settur einn milljarður kr. í byggingu fangelsis á Hólmsheiði á næsta ári. Herjólfur og Landeyjahöfn fá 640 milljónir. „55% hlutafjár eða þá 440 milljónir króna verða notaðar í kaup á Vestmannaeyjaferju. 200 milljónir fara í rannsóknir og framkvæmdir við Landeyjahöfn. Þetta verða allt í allt um 1.700 milljónir af fjárfestingaráætlun á næstu þremur árum, auk hlutafjár,“ sagði Katrín.

Þá verða 800 milljónir settar í Hús íslenskra fræða. Þá fær Húsverndarsjóður 200 milljóna viðbótarframlag á næsta ári og Náttúruminjasafn 500 milljónir. Loks verða settar 290 milljónir kr. í Þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri.

mbl.is

Bloggað um fréttina