Stúlkunum „leikið fram til fórnar“

Ferðataska annarrar stúlkunnar. Kókaínið var afar vel falið og tók …
Ferðataska annarrar stúlkunnar. Kókaínið var afar vel falið og tók tollverði dágóðan tíma að finna það. Ljósmynd/celnisprava.cz

Feður stúlknanna tveggja sem sæta gæsluvarðhaldi í Prag í Tékklandi vegna innflutnings nokkurra kílóa af kókaíni grunaði báða eitthvað misjafnt. Annar þeirra varaði dóttur sína við því að reyna fíkniefnainnflutning, sagði að ef svo færi að hún yrði tekin gæti hann ekkert gert.

Rætt var við feðurna í Kastljósi Ríkisútvarpsins fyrr í kvöld. Þar kom fram að báðar hafa stúlkurnar sem eru átján ára byrjað ungar í vímuefnaneyslu og afbrotum. Þær hafa báðar farið í meðferðir vegna neyslu sinnar en ekki náð tökum á vandanum.

Stúlkurnar upplýstu ekki nákvæmlega hvernig ferð þeirra var háttað. Annar faðirinn sagði að þær hefðu sagst ætla í stutt frí. Þegar þær ílengdust og leitað var svara kom í ljós að þær voru á Spáni. Alltaf sögðust þær vera á leiðinni heim en allt í einu voru þær svo komnar til Brasilíu.

„Mér fannst þetta svolítið langur tími og orðið eitthvað gruggugt. Ég brýndi fyrir henni að ef þær gerðu eitthvað svona þá gæti ég ekkert gert,“ sagði faðir annarrar þeirra. Hinn sagðist ekki trúa því að dóttir sín gæti gert eitthvað svona. „En mig var farið að gruna þetta. Við reyndum að koma þessu að án þess að ásaka hana. Bentum henni á að skoða töskuna sína vel áður en hún kæmi heim. Hún hló að því og sagðist ætla að gera það.“

Báðir sögðust feðurnir hafa fengið áfall þegar þeir heyrðu fréttirnar. „Ég var bæði hræddur og sorgmæddur, óttaðist um hana. Hún er nýorðin átján ára og er í raun bara barn ennþá,“ sagði annar þeirra. Hinn sagðist hafa fengið aukasjokk yfir fréttum af magninu sem greint var frá, sem virðist ekki hafa verið rétt. „En það var léttir að þetta gerðist ekki í Brasilíu.“ Hann bætti við að gott væri að efnin hefðu ekki komist lengra, ekki út á götuna, enda hefði hann séð hvernig vímuefni hefðu farið með dóttur sína.

Þá vilja báðir að stúlkurnar afpláni dóm sinn á Íslandi, en leggja áherslu á að þær afpláni dóm sinn enda hafi þær framið glæp. „En burðardýrin eru peð. Þessu er leikið fram til fórnar.“

Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunni.
Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunni. Ljósmynd/celnisprava.cz
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert