Hvatti stúlkurnar til að vera samvinnuþýðar

Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunum.
Kókaínið var falið innan undir klæðningu í töskunum. Ljósmynd/celnisprava.cz

Dómari í máli íslensku stúlknanna sem handteknar voru í Tékklandi í síðustu viku sagði við þær ef þær væru samvinnuþýðar væri hægt að ljúka málinu og kveða upp dóm innan þriggja mánaða. Þær sögðu fyrir dómnum að þær vissu ekkert um fíkniefnin sem fundust í töskum þeirra.

Stúlkurnar eru 18 ára gamlar. Þær voru að koma frá Brasilíu með millilendingu í München í Þýskalandi. Tollverðir í München urðu varir við fíkniefnin, en ákváðu að leyfa þeim að fljúga áfram til Tékklands þar sem þær voru handteknar. Enginn annar hefur verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Í Tékklandi beið þeirra leigubíll. Bílstjóri hans sagði að hann hefði verið beðinn að aka þeim frá flugvellinum á járnbrautarstöðina. Ekkert bendir til þess að hann tengist málinu.

Ekkert er því vitað um þá sem taldir eru hafa skipulagt fíkniefnasmyglið, en útilokað talið að stúlkurnar hafi einar staðið að smyglinu.

Ekki er búið að leggja fram upplýsingar um hversu mikið af fíkniefnum var í töskunum en í fyrstu frétt tékkneskra fjölmiðla um málið sagði að fundist hefðu tæplega átta kíló af kókaíni. Ekki er víst að magnið sé svo mikið. Einnig á eftir að ljúka rannsókn á styrk efnanna.

Stúlkurnar voru handteknar á miðvikudag og voru í yfirheyrslum fram á fimmtudagsmorgun. Þær komu síðan fyrir dómara á föstudag þar sem þær voru úrskurðaðar í sjö mánaða gæsluvarðhald. Ekki er óalgengt í Tékklandi að menn sem grunaðir eru um alvarleg brot séu dæmdir í svo langt gæsluvarðhald.

Könnuðust ekki við fíkniefnin

Dómari sagði við stúlkurnar á föstudaginn að ef þær væru samvinnuþýðir væri hægt að ljúka rannsókn málsins og kveða upp dóm innan þriggja mánaða. Þær gáfu ekkert til kynna á föstudaginn að þær væru tilbúnar til að aðstoða við rannsókn málsins. Þær sögðust ekkert vita um fíkniefnin sem fundust í töskunum og gáfu því engar upplýsingar um hver hefði komið þeim þar fyrir eða hvað þær ætluðu að gera við efnin.

Stúlkurnar eru hvor í sínu fangelsinu og munu að öllu óbreyttu verða þar næstu sjö mánuðina eða þar til dómur fellur. Þær hafa ekki fengið að tala við foreldra sína og raunar hefur enginn Íslendingur talað við þær síðan þær voru handteknar nema ræðismaður Íslands í Prag. Reiknað er með að þær verði yfirheyrðar að nýju í þessari viku og þá reynir á hvort þær muni á einhvern hátt aðstoða lögreglu við rannsókn málsins.

Búið er að skipa stúlkunum lögmenn og túlkur aðstoðar þær. Þær geta átt von á að fá þunga dóma. Verjendur þeirra vonast eftir að ungur aldur þeirra hafi áhrif á refsinguna, en eins geta þær átt von á vægari dómi ef þær aðstoða við rannsókn málsins. Frekar sjaldgæft er hins vegar að burðardýr segi til þeirra sem skipuleggja fíkniefnasmygl.

Ekkert liggur fyrir um hvort stúlkurnar muni taka út refsingu á Íslandi, en það kemur ekki til álita fyrr en rannsókn lögreglu er lokið og búið er að dæma í málinu.

Feður stúlknanna sögðu í Kastljósi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að báðar stúlkurnar hefðu  byrjað ungar í vímuefnaneyslu og afbrotum. Þær hafa báðar farið í meðferðir vegna neyslu sinnar en ekki náð tökum á vandanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina