Gagnrýna meirihlutann harðlega

Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi
Frá bæjarstjórnarfundi í Kópavogi Morgunblaðið/Árni Sæberg

Bæjarfulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna og Næstbesta flokksins í Kópavogi segja að á meðan meirihlutinn tali um lækkun skatta og gjalda séu álögur auknar á barnafjölskyldur og sérkennsla skert. Gagnrýnir minnihlutinn það að ekkert samráð hafi verið haft við hann um fjárhagsáætlunina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá minnihlutanum í bæjarstjórn.

„Það vekur helst athygli að á sama tíma og meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks talar um lækkun skatta eru þjónustugjöld á barnafjölskyldur aukin og sérkennsla skert, byrðarnar eru fluttar af eigendum stórra fasteigna yfir á fjölskyldur með ung börn.

Jafnframt eru kynntar fyrir bæjarbúum skatta og gjaldalækkanir.  Slíkar fullyrðingar eru alrangar og má hrekja með eftirfarandi staðreyndum:

Vatnsskattur lækkar í prósentum úr 0,135 í 0,120 en um leið verður aukavatnsskattur hækkaður.

Gert er ráð fyrir lækkun fasteignaskatts úr 0,32% í 0,29%. En þar sem fasteignamat fyrir árið 2013 hækkar í Kópavogi um 8,3% samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands sýnir fjárhagsáætlun 107 milljóna króna tekjuaukningu í innheimtu fasteignaskatta. Verðbólguspá fyrir næsta ár gerir ráð fyrir 4,1 verðbólgu, því ber þetta af sama brunni, verið er að framkvæma sýndarlækkanir en raunhækkanir.

Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur nú gengið þvert á fullyrðingar sínar um skattalækkanir í Kópavogi og hefðu þannig mátt spara stóru orðin.  Á sama tíma eru gjöld að hækka, framlög til grunn- og leikskóla  fylgja ekki verðlagsþróun og lækka því hlutfallslega.  Því er hér samhliða verið að skerða þjónustu við bæjarbúa og hækka álögur.

Ekkert samráð var haft við minnihlutann í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun ársins, í fyrsta sinn frá árinu 2007.  Jafnframt var ekki leitað samstarfs við stofnanir bæjarins, nefndir og ráð, slíkt ber merki um gamaldagspólitík og vart til fyrirmyndar,“ segir í fréttatilkynningu sem bæjarfulltrúar Samfylkingar, Vinstri Grænna og Næstbesta flokks rita undir: Elfur Logadóttir, Hjálmar Hjálmarsson, Margrét Júlía Rafnsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Pétur Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert