Bílar sitja fastir á Öxnadalsheiði

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Björgunarsveitin Súlur á Akureyri hefur verið kölluð út í ófærðaraðstoð á Öxnadalsheiði. Þar sitja nú fastir nokkrir fólksbílar og tveir flutningabílar. Tveir bílar frá björgunarsveitinni eru á leið á heiðina. Veðrið er slæmt, SSV strekkingur og snjór fýkur í skafla auk þess sem vegurinn er afar háll. Vegagerðin hefur nú auglýst lokun á veginum. Einnig hefur leiðinni um Vatnsskarð verið lokað.

Björgunarsveitin Eyvindur á Flúðum er svo á leið á Kjalveg til að aðstoða bílstjóra sem hefur fest bíl sinn. 

Færð á landinu

Vegir eru víðast hvar auðir um sunnanvert landið en hálkublettir eru þó á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á Holtavörðuheiði, snjóþekja á Bröttubrekku og hálka á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er víða hálka - en snjóþekja og éljagangur á Þröskuldum. Óveður er á Ennishálsi.

Á Norðurlandi er óveður á Öxnadalsheiði og heiðin er lokuð vegna veðurs og fjölda bíla sem þar eru í vandræðum. Óveður er einnig á Vatnsskarði og á Siglufjarðarvegi frá Hofsósi út í Ketilás, og eins á Mývatnsöræfum. Víða er hált, einkum um austanvert Norðurland.

Laxá í Aðaldal flæðir inn á  veginn við Garðsnúp og eru vegfarendur beðnir að sýna varúð.

Á Austurlandi er flughált í Jökuldal, Hlíðarvegi og Hróarstunguvegi. Hálka er á flestum vegum norðan Reyðarfjarðar en frá Reyðarfirði er autt með ströndinni suður úr. Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert