Stúlkurnar í áfalli

Kókaínið var afar vel falið.
Kókaínið var afar vel falið.

Aðalræðismaður Íslands í Tékklandi heimsótti í gær íslensku stúlkurnar tvær sem voru handteknar í landinu í síðustu viku vegna gruns um fíkniefnasmygl. „Auðvitað er þetta rosalegt sjokk fyrir þær,“ segir Þórir Gunnarsson aðalræðismaður í samtali við mbl.is.

„Þær eru búnar að gera sér grein fyrir þessum veruleika að einhverju leyti,“ segir Þórir ennfremur. Líklegt þykir að stúlkurnar, sem eru 18 ára gamlar, verði í fangelsi í a.m.k. þrjá mánuði, eða þar til dómur fellur.

Aðspurður segir hann að nú bíði menn eftir að fá að vita hversu mikið magn af fíkniefnum hafi verið í farangri þeirra. Fyrst þá muni lögreglan ræða við stúlkurnar, sem eru nú í gæsluvarðhaldi, með formlegum hætti.

„Þangað til er ekkert rætt við þær eða neitt. Þær fá bara að dúsa þarna,“ segir Þórir. Hann bendir á að frumskýrslur hafi verið teknar af stúlkunum þegar þær voru handteknar á flugvellinum í Prag 7. nóvember sl. og stóð skýrslutakan yfir í um 18 tíma.

Aðbúnaðurinn slæmur

Stúlkurnar eru nú hvor í sínu fangelsinu í höfuðborginni Prag, önnur er í Ruzyně- og hin í Pankrác-fangelsinu. Að sögn Þóris er aðbúnaður þeirra „jafnlélegur“ á báðum stöðum, en hann segir að þær séu í nokkurs konar einangrun og megi aðeins ræða við tvær konur.

Aðspurður segir hann aðstöðuna í tékkneskum fangelsum agalega borið saman við aðbúnað í fangelsum á Norðurlöndunum.

Stúlkurnar voru að koma frá Brasilíu með millilendingu í München í Þýskalandi. Tollverðir í München urðu varir við fíkniefnin, en ákváðu að leyfa þeim að fljúga áfram til Tékklands þar sem þær voru handteknar í síðustu viku.

Hart tekið á fíkniefnamálum

„Málið stendur þannig að ef þær eru samvinnuþýðar og reyna að vinna með öllum og þeim ber saman þá gengur það vel. Ef það er ekki svoleiðis þá gengur það illa,“ segir Þórir. Hann tekur fram að Tékkar taki mjög hart á fíkniefnasmygli og dómar séu í samræmi við það.

„Ég fékk allan tíma sem ég vildi,“ segir Þórir spurður út í heimsóknina. Hann sat með hvorri þeirra í um einn og hálfan tíma í gær. Megintilgangurinn var að huga að aðbúnaði þeirra og veita þeim stuðning. Hann útvegaði þeim m.a. peninga sem þær geta notað til að kaupa nauðsynjavörur í fangelsinu, t.d. sjampó.

Þórir er væntanlegur til Íslands og mun ekki hitta stúlkurnar aftur fyrr en eftir rúman mánuð. Hann bendir á að stúlkurnar séu komnar með tékkneska lögmenn sem þær eigi í samskiptum við með aðstoð túlks sem tali íslensku.

Þórir vonast til að tékknesk yfirvöld taki tillit til ungs aldurs stúlknanna og hægt verði að komast að samkomulagi við yfirvöld um að fá að flytja stúlkurnar til Íslands. Hann tekur hins vegar fram að stúlkurnar muni a.m.k. dvelja næstu þrjá mánuði á bak við lás og slá í Tékklandi. Fyrst þá sé hægt að hefja viðræður við þarlend yfirvöld í tengslum við mál stúlknanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina