Vilborg er komin á Suðurskautslandið

Vilborg Arna Gissurardóttir stefnir að því, fyrst íslenskra kvenna, að …
Vilborg Arna Gissurardóttir stefnir að því, fyrst íslenskra kvenna, að ganga á Suðurpólinn.

Vilborg Arna Gissurardóttir, sem stefnir að því, fyrst íslenskra kvenna, að ganga á suðurpólinn er komin á Suðurskautslandið, eftir að hafa beðið um hríð í Punta Arena í Síle eftir því að geta flogið á upphafsstað göngu sinnar.   

„Komin A Sudurskautid, mognud tilfinning, flugid var skemmtilegt, eins og ad vera i landrover-geim-bat. Otrulega Fallegt Her,“ skrifaði Vilborg á bloggsíðu sína í fyrradag.

Hún lagði af stað frá Íslandi 2. nóvember og er nú stödd í Union Glacier en þar eru tjaldbúðir ALE (antarctic logistics and expeditions) á suðurskautinu. Þar þarf Vilborg að staldra við áður en lengra er haldið. Hún mun síðan fara með flugvél til Hercules Inlet, sem er jökull út við ströndina, en þar er upphafsstaður göngunnar.

Á bloggsíðu Vilborgar segir að þar njóti hún stuðnings við leiðangurinn frá ALE og verður hún í sambandi við tjaldbúðirnar a.m.k. einu sinni á sólarhring meðan á ferð hennar um suðurpólinn stendur.

Í búðunum mun Vilborg hitta lækni, veðurfræðing og samskiptafræðing áður en hún leggur í ferðina, auk þess að fá nýjar upplýsingar um aðstæður á áætlaðri ferð á suðurpólinn.

Áætlað er að ferð Vilborgar frá Hercues Inlet á syðsta punkt jarðar taki um 50 daga og að á hverjum degi gangi hún um 22 km að meðaltali. Hún mun draga á eftir sér tvo sleða með nauðsynlegum búnaði til fararinnar sem vegur í byrjun um 100 kg.

Vilborg Arna fer þessa göngu í þágu Lífs, styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans - og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908-1515 (1.500 kr) eða með frjálsum framlögum á bloggsíðu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert