Leituðu til lögreglu vegna hótana

Lögreglumenn í Héraðsdómi Reykjanesi.
Lögreglumenn í Héraðsdómi Reykjanesi. mbl.is/Júlíus

Vitnum, sakborningum og fjölskyldum þeirra var hótað ofbeldi ef framburði yrði ekki breytt við aðalmeðferð yfir Annþóri Kristjáni Karlssyni, Berki Birgissyni og átta öðrum karlmönnum. Meðal annars var hótað að beita barnsmóður eins sakbornings ofbeldi.

Þetta kom fram í máli lögreglumanns sem kallaður var fyrir dóm til skýrslugjafar í morgun. Lögreglumaðurinn nefndi að eitt vitnið hefði tvívegis haft samband, fyrst í sumar og svo aftur í október. „Hann vildi ekki breyta framburði sínum en þorði ekki annað,“ sagði lögreglumaðurinn og bætti við að nefnd hefði verið byssa í þessu sambandi til að ítreka alvöru málsins.

Þá hafði sakborningur samband, hræddur um líf sitt vegna hótana. Annars vegar hafði Annþór samband við tengdamóður hans og hins vegar var haft samband við barnsmóður hans. Tengdamóðurinni var gert að koma skilaboðum til sakborningsins; annaðhvort væri hann vinur þeirra, Annþórs og Barkar, eða lögreglunnar.

Þá kom nafnlaust símtal til barnsmóðurinnar og tekið fram að hún yrði meidd ef sakborningurinn breytti ekki framburði sínum.

Taka ber fram að framburður umrædds sakbornings var Annþóri og Berki sannarlega í hag.

Aðalmeðferð í málinu er lokið í dag og fer málflutningur fram á morgun. Gert er ráð fyrir að málflutningi ljúki samdægurs og málið verði þá dómtekið síðdegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert