Landsbankinn fellur frá tveimur málum

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn mun á næstu vikum leiðrétta endurreikning allra gengistryggðra lána einstaklinga og lögaðila þar sem uppfyllt eru þau skilyrði sem finna má í dómum Hæstaréttar frá því í febrúar (mál nr. 600/2011) og október (mál nr. 464/2012) á þessu ári.

Í tilkynningu kemur fram að við endurreikninginn verður m.a. horft til þess hversu lengi viðskiptavinir hafa staðið í skilum.  Þeir sem hafa verið í skilum, þegið greiðsluúrræði og fengið fullnaðarkvittanir falla þar undir. Byrjað verður á fasteignalánum einstaklinga með lánstíma 20 ár og lengur. Stefnt er að því að leiðréttingum þeirra lána verði lokið fyrir jól. Fyrstu lánin hafa þegar verið leiðrétt og verða tilkynningar um þær leiðréttingar sendar viðskiptavinum á næstu dögum.

Landsbankinn mun næst yfirfara fyrirtækjalán með lánstíma 20 ár og lengur.

„Með dómi Hæstaréttar frá því í október hefur skýrst verulega hvernig og hvenær leiðrétta þarf endurreikning gengistryggðra lána. Því verður fallið frá tveimur af fjórum prófmálum sem áætluð voru í kjölfar samstarfs lánveitenda og lántaka.

Vonir bankans standa til að snemma á næsta ári verði búið að eyða þeirri óvissu sem eftir stendur þannig að ljúka megi vinnu við endurreikninginn.  Það er í þágu hagsmuna viðskiptavina að fá fulla vissu um hvort og hvernig leiðrétta þarf endurreikninga þannig að um endanlega niðurstöðu verði að ræða.

Landsbankinn mun hins vegar yfirfara öll gengistryggð lán viðskiptavina sinna og búa með því í haginn fyrir skjóta afgreiðslu allra lána sem leiðrétta þarf í samræmi við niðurstöðu í væntanlegum dómum Hæstaréttar.

Fjöldi gengistryggðra lána í Landsbankanum er um 46 þúsund. Ljóst er að endurreikningurinn felur í sér mikla og tímafreka vinnu. Bankinn mun leggja mikla áherslu á að hraða þeirri vinnu en gera má ráð fyrir að hún muni standa yfir í einhverja mánuði.

Vegna þeirrar óvissu sem enn ríkir, býðst einstaklingum með gengistryggð lán að lækka greiðslubyrði tímabundið með því að greiða einungis vexti en fresta afborgun af höfuðstól.  Þeir sem óska eftir slíkri lækkun á greiðslubyrði er bent á að snúa sér til útibús síns eða til Bíla- og tækjafjármögnunar bankans frá og með mánudeginum 26. nóvember,“ segir í tilkynningu frá bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert