Vilborg gekk yfir 30 km um helgina

Vilborg á ferð með sleða
Vilborg á ferð með sleða

Vilborg Gissurardóttir, sem er á leið á suðurpólinn á gönguskíðum, gekk 15 km leið í dag og 16 km í gær. Hún segir að dagurinn í dag hafi verið nokkuð krefjandi.

Leiðin á suðurpólinn er 1100 km löng og hækkun er 2800 metrar. Vilborg er með vistir sem vega í upphafi 100 kg.

Nokkur vindur blés á Vilborgu í dag, en erfiðast var þó að eiga við rifskafla. Slíkir skaflar eru harðfennisklakar sem oft ganga þvert á gönguleiðina. Vilborg segir að það reyni talsvert á kroppinn og búnaðinn að takast á við þessa skafla. Hún segir á bloggsíðu sinni, að hún hafi reynt að krækja framhjá stærstu sköflunum. „Kvöldmaturinn var góður og það stefnir í góðan nætursvefn.“

Vilborg segir að hún hafi fengið ágætt veður það sem af er. Hitamælirinn sýni 6 stiga hita en hún segist halda að hann sé eitthvað að stríða sér. A.m.k. sé mikið frosthrím á hettunni.

Vilborg gengur á suðurpólinn til styrktar kvennadeild Landspítalans. Hún hvetur fólk til að leggja málefninu lið.

mbl.is