Fyrstu vindmyllurnar til landsins

Vindorka gæti orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar, ásamt vatnsafli og jarðvarma, ef allt fer að óskum. Á þetta mun reyna á næstunni, en Landsvirkjun mun í desember reisa tvær vindmyllur á Suðurlandi. Myllurnar, sem eru 55 metra háar, voru fluttar landleiðina úr Hafnarfjarðarhöfn í dag.

Nýting vindorku hefur aukist mjög í heiminum undanfarin áratug. Tækninni hefur fleygt fram, þar á meðal í gerð hljóðlátari vindmylla, og kostnaður hefur lækkað. Vindur er endurnýjanleg orka og telur Landsvirkjun áhugavert að kanna hvernig hún nýtist Íslendingum í samspili með vatnsorku, en sveigjanleiki vatnsorkunnar getur aukið verðmæti vindorkunnar. Þannig gæti vindorka verið kostur til að fjölga orkuvinnslumöguleikum Landsvirkjunar til að draga úr áhættu. 

77 metra háar í fullri reisn

Vindmyllurnar tvær sem fluttar hafa verið til landsins eru hvor um sig um 900 kW en samanlögð áætluð raforkuframleiðsla þeirra er 5,4 GWst á ári. Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar á lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð vindmyllunnar 77 metrar, en til samanburðar þá er Hallgrímskirkjuturn 74,5 metra hár. 

Í upplýsingum frá Landsvirkjun um myllurnar segir að líkt og öll stór mannvirki hafi vindmyllur óhjákvæmilega áhrif á ásýnd umhverfisins. „Varanleg áhrif á heildarsýn umhverfisins eru þó ekki talin mikil í samanburði við aðra virkjanakosti. Vindmyllur og undirstöður má auðveldlega fjarlægja ef leggja á framleiðsluna niður og þá er landið nær óspillt.“

Þá kemur fram að ör þróun hafi orðið í gerð hljóðlátari vindmylla og leiki þar framfarir í hönnun á spöðum stórt hlutverk. „Hljóðstyrkur fellur hratt með fjarlægð og því falla hljóðin frá vindmyllunum oft í skugga venjulegra bakgrunnshljóða, árniðar og vindgnauðs. Hljóð frá hverri vindmyllu er allt að 103dB næst henni, en aðeins um 45dB í 340 metra fjarlægð.

Stöðvast ef vindur er minni en 3 metrar

Vindmyllurnar ná fullu afli við 15 metra vindhraða á sekúndu. Gert er ráð fyrir að rafmagnsframleiðsla stöðvist ef vindhraði er minni en 3 metrar á sekúndu. Framleiðsla minnkar ef vindur fer upp fyrir 28 metra á sekúndu og stöðvast alveg ef vindur fer upp fyrir 34 metra á sekúndu. 

Með tilraunavindmyllunum fæst að sögn Landsvirkjunar dýrmæt reynsla af rekstri vindaflsstöðva langt frá sjó og við íslensk veðurskilyrði. Mikilvægt sé t.d. að afla upplýsinga um magn og tíðni ísingar til að geta metið áhrif hennar á reksturinn. Einnig verður safnað upplýsingum áhrif á búnað vegna skafrennings, ösku- og sandfoks, sem og áhrifum á fuglalíf og annað dýralíf. Auk þess verður til almenn rekstrarreynsla, sem að sögn Landsvirkjunar má byggja á ef farið verður í uppbyggingu á vindorkunýtingu hér á landi í framtíðinni.

Vindmyllurnar verða reistar í 250-270 metra hæð yfir sjávarmáli. Þær verða reistar á svæði sem kallast Hafið, nálægt Búrfellsstöð á Suðurlandi.  Vindmyllurnar eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon, sem sérhæfir sig í vindmyllum á landi. Starfsmenn Enercon munu setja upp myllurnar í desember og gera áætlanir ráð fyrir að þær verði afhentar Landsvirkjun til rekstrar í lok janúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert