Fjarveru Baldurs harðlega mótmælt

Breiðafjarðaferjan Baldur.
Breiðafjarðaferjan Baldur. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps mótmæla harðlega þeirri einhliða ákvörðun Vegagerðarinnar að flytja Breiðafjarðarferjuna Baldur í Landeyjahöfn til að þjónusta íbúa Vestmannaeyja. Þá benda Sæferðir á að stjórnvöldum hafi margoft verið bent á nauðsyn varaferju til afleysinga.

Á vef Sæferða kemur fram að farþegaferjan Særún fer ferðir á milli Stykkishólms og Flateyjar og áfram til Brjánslækjar eftir þörfum. Búið er að koma upp áætlun vegna þessa. „Þó svo að okkur hjá Sæferðum sé fyllilega ljóst að þessi röskun á áætlun Baldurs mun valda viðskiptavinum óþægindum vonum við að það verði sem allra minnst.

Sæferðir hafa margoft bent stjórnvöldum á mikilvægi þess að í landinu sé varaferja til að leysa Baldur og  Herjólf af, þegar svona tilvik koma upp og lagt fram tillögur þar að lútandi. Við teljum að þetta atvik staðfesti mikilvægi þess að slík ferja sé til staðar í landinu.“

Engin aðgerðaráætlun til

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps sendu frá sér ályktun vegna málsins þar sem á það sé bent að Baldur sé fluttur burtu án þess að fyrir liggi aðgerðaáætlun um hvernig skuli staðið að því að þjónusta íbúa og fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum á meðan Baldur er fjarverandi.

„Sveitarstjórnirnar hafa fullan skilning á vanda Eyjamanna sem enn og aftur sýnir mikilvægi þess að ný ferja til Vestmannaeyja verði keypt svo fljótt sem verða má, enda var Landeyjahöfn ekki hönnuð með núverandi Herjólf í huga.“

Þá hafa sveitarstjórnirnar áhyggjur af mögulega langri fjarveru Baldurs frá Breiðafjarðarsiglinum sem koma sér mjög illa á þessum árstíma enda ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum ekki með þeim hætti að hægt sé að treysta á að samgöngur séu greiðar.

„Þá er allra veðra von og vegir geta orðið ófærir í einu vetfangi. Vegagerðin boðar allt að 10 daga fjarveru en reynslan sýnir að það verður alltaf lengri tími.

Baldur er aðalflutningaleið fyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum. Atvinnulífið treystir á greiðar samgöngur enda mikil verðmæti sem þarf að koma til skila frá atvinnulífinu á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal á markaði innanlands sem utan.“

Gera kröfu um sólarhringsþjónustu

Sveitarstjórnirnar gera þá kröfu til Vegagerðarinnar að sólahringsþjónusta og aðstoð verði við flutningabíla upp erfiða hjalla og hálsa á Vestfjarðavegi 60, alla daga þar til  Baldur snýr til baka.

Vegagerðin hefur hins vegar lofað að leggja ríka áherslu á að halda veginum um Barðaströnd eins greiðfærum og kostur er. Þjónustutími verði lengdur fram á kvöld, veghefill verði í Gufudalssveit til að viðbragstími styttist ef þörf verður á slíkri þjónustu og eftirlit aukið og þannig upplýsingagjöf verði tíðari.

Eftir því sem tilefni gefast til verður hálkuvarið umfram gildandi verklagsreglur. Þá boðar Vegagerðin að náið samstarf verði haft við flutningafyrirtækin á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina