Móra hefur braggast ótrúlega vel

Þessi mynd af Móru með lambhrútana þykir lýsandi fyrir það …
Þessi mynd af Móru með lambhrútana þykir lýsandi fyrir það sem margar sauðkindur á Norðurlandi upplifðu í september. Ljósmynd/Þorsteinn Jónsson

Ærin Móra, sem fannst eftir að hafa verið föst í fönn í 20 daga, hefur braggast ótrúlega vel. Móra var aðeins 25 kíló þegar henni var bjargað.

Móra er í eigu Sæþórs Gunnsteinssonar á bænum Presthvammi í Aðaldal. Liðsmenn Björgunarsveitarinnar Dagrenningar frá Hvolsvelli fundu hana  30. september sl. eftir 20 daga vist í fönn. Myndin af Móru, sem Þorsteinn Jónsson formaður Dagrenningar tók af henni ásamt tveimur lambhrútum, hefur verið skoðuð í 64.000 skipti á facebook-síðu Dagrenningar, auk þess sem myndin birtist í öllum helstu fjölmiðlum landsins.

Sæþór segir í samtali við fréttavefinn 641.is að Móra hafi strax farið að éta hey þegar hún kom í hús. Rúningi er nýlega lokið í Presthvammi og er ekki annað að sjá en Móra hafi braggast ótrúlega vel á þessum tæplega tveim mánuðum sem eru liðnir frá því henni var bjargað. Lambhrútarnir hafa líka braggast vel og verða þeir á fóðrun í vetur, enda voru þeir ekki sláturhústækir eftir erfiða vist í fönn. Móra átti sjálf annan hrútinn en hinn var frá Heiðargarði í Aðaldal.

Þorsteinn lýsti því í samtali við mbl.is fyrr í haust hvernig björgunarsveitarmennirnir komu auga Móru i holunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert