Skaflabrölt tekur á taugarnar

Vilborgu Örnu Gissurardóttur miðar ágætlega á leið sinni á suðurpólinn eftir að hafa lent í erfiðum aðstæðum í fyrradag, þar sem skaflabrölt tók á taugarnar. Hún segir að það sé mjög hvetjandi að fá skilaboð inn á vef ferðarinnar en hún les þau yfir kvöldmatnum á hverjum degi.

Í samtali við Hall Má Hallsson segir Vilborg Arna að þrátt fyrir að miða ágætlega þá væri hún alveg til í að komast lengri dagleiðir. Skiptir þar miklu hvað sleðinn er þungur og eins hafi hún lent í „white out“ aðstæðum hluta leiðarinnar.

Þegar Vilborg kom í náttstað á mánudagskvöldið sá hún að skaflabröltið hafði tekið sinn toll því ein tjaldsúlan hafði brotnað. Í stað þess að geta komið sér fyrir í tjaldinu varð hún að gera við stöngina í ískulda og roki.

Hér er hægt að fylgjast með ferðalagi Vilborgar Örnu

mbl.is