Guðfræðiprófessor vill breytt þjóðkirkjuákvæði

Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Friðrik Tryggvason

Prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands leggur til í umsögn við ný stjórnskipunarlög breytingu á núverandi þjóðkirkjuákvæði. Segir hann að í ljósi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu sé lágmarksbreyting æskileg.

20. október fór fram ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Meðal annars var spurt hvort ákvæði um þjóðkirkju eigi að vera í nýrri stjórnarskrá. Þar var meirihluti þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni á þeirri skoðun að svo ætti að vera.

Ákvæðið taki til annarra trú- og lífsskoðunarfélaga

Hjalti Hugason, prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ, telur hins vegar, í ljósi niðurstöðu við annarri spurningu, þ.e. hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá, æskilegt að gera þurfi breytingar á ákvæðinu.

Sem kunnugt er var meirihluti fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs eigi að leggja til grundvallar, en í þeim felst að þjóðkirkjuákvæðið er tekið út.

„Þar sem ekki var spurt um óbreytt þjóðkirkjuákvæði frá því sem nú er að finna í 62. gr.stjskr. virðist fullt svigrúm til breytingar,“ segir Hjalti.

Hann vill að nýja ákvæðið hljómi á þessa leið:

„Kveða skal á um stöðu þjóðkirkjunnar sem og annarra skráðra trú- og lífsskoðunarfélaga í lögum.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á ákvæðum laga um stöðu þjóðkirkjunnar og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“

Hjalti segir brýnt, með tilliti til trúfrelsis og mikilvægis þess að auka jöfnuð hvað trú og lífsskoðanir áhrærir, að ákvæðið kveði einnig á um stöðu annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Biskup Íslands ekki á sama máli

Biskup Íslands sendi einnig stutta athugasemd til eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis. Þar er einnig vísað til niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Kirkjuráð telur að þessi niðurstaða feli í sér að ákvæði 62. gr. í núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands um þjóðkirkjuna nr. 33/1994 skuli haldast óbreytt í tillögu að nýrri stjórnarskrá.“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert