Barnabætur verða hækkaðar

Hækkun barnabóta mun kosta ríkissjóð 2,5 milljarða kr á ári.
Hækkun barnabóta mun kosta ríkissjóð 2,5 milljarða kr á ári. mbl.is/Golli

Barnabætur verða hækkaðar á næsta ári samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum 2013, svo kölluðum bandormi. Barnabætur hafa verið óbreyttar að krónutölu með hverju barni frá árinu 2009.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að barnabætur vegna barna yngri en 7 ára verði hækkaðar úr 61.191 kr á ári í 100.000 kr á ári. Þá er lagt til að tekjuskerðingarmörk verði hækkuð úr 1,8 milljónum á ári fyrir einstæða foreldra í 2,4 milljónir kr. 

Auk þessa er gert ráð fyrir því að upphæðir almennra barnabóta verði hækkaðar um 10% frá því sem verið hefur undanfarin 4 ár. Þannig verða óskertar bætur hjóna með fyrsta barni rúmar 167 þúsund kr. en rúmar 199 þúsund kr. með hverju barni umfram það. Barnabætur einstæðra foreldra verða eftir hækkunina rúmar 279 þúsund kr. með fyrsta barni en 286 þúsund kr. með hverju barni umfram eitt.

Hærri barnabætur og vaxtabætur kosta 4,5 milljarða

Einnig er lagt til í frumvarpinu að tímabundin 30% hækkun á vaxtabótum verði framlengd um eitt ár, en að óbreyttu hefði hún fallið niður um næstu áramót. 

Þessar lagabreytingar leiða til aukinna útgjalda hjá ríkissjóði um næsta ári. Hækkun barnabóta mun kosta ríkissjóð 2,5 milljarða kr. á ári og óbreyttar vaxtabætur um 2 milljarða kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert