Bjarni farinn úr VG

Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður.
Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður. mbl.is

„Það stóð nú bara nánast í greininni. Ég beið bara eftir því að hún birtist og þá sagði ég mig úr flokknum,“ segir Bjarni Harðarson, bóksali og fyrrverandi alþingismaður, aðspurður hvort hann hafi sagt sig úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði.

Bjarni ritar harðorða grein í Morgunblaðið í dag um VG og hvernig haldið hafi verið á málum af hálfu forystu flokksins vegna Evrópumálanna og annarra mála. Segir hann ríkisstjórn Samfylkingarinnar og VG lítið hafa afrekað á kjörtímabilinu sem lýkur í vor.

„Kraftur hennar hefur farið í slagsmál um ESB-aðlögun og almenna þjónkun við erlend stórríki. Mestur efnahagsbati okkar Íslendinga verður hins vegar rakinn til neyðarlaganna svokölluðu og krónunnar sem vinnur sitt verk þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir snuprur húsbænda,“ segir hann.

Þá gagnrýnir hann formann VG, Steingrím J. Sigfússon, fyrir að hafa eyðilagt flokkinn til framtíðar á kjörtímabilinu. „Það er í raun og veru snöfurmannlega gert á ekki lengri tíma, en fyrir aðeins fjórum árum horfðu landsmenn með velþóknun og trausti á flokk VG og formann hans. Á sama tíma hefur áætlunin um að búa til einn stóran ESB-flokk með samruna við Samfylkinguna runnið út í sandinn.“

Keppni um það hver muni stefnuna best

Bjarni segir í greininni að búast megi við því að korter í kosningar muni hefjast keppni á meðal forystumanna VG til málamynda um það hver myndi best yfirlýsta stefnu flokksins í Evrópumálum og vísað til þess að slíkt hafi einnig gerst í haust þegar nokkrir þingmenn VG hafi allt í einu farið að tala fyrir endurskoðun ESB-umsóknarinnar án þess að neitt kæmi síðan út úr því.

Þá rifjar hann upp að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi kosið að uppnefna stefnufast VG-fólk og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þannig nefnt það villiketti. Bjarni segir þó ekki slæmt að vera líkt við ketti enda fari þeir sínar eigin leiðir.

„Eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið hefur fækkað í villikattadeildinni og nú erum við aðeins örfáir eftir og ekki seinna vænna að skrifa sig út svo enginn láti sér detta í hug að við kettirnir gefum út heilbrigðisvottorð á þá pissukeppni sem framundan er,“ segir Bjarni að lokum í greininni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert