Dómur í barnsdrápsmáli í dag

Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Frá aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Una

Hæstiréttur kveður upp dóm sinn í dag í máli ríkissaksóknara gegn Agné Krataviciuté sem í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. mars sl. var dæmd í tveggja ára fangelsi fyrir barnsdráp. Saksóknari fór fram á sextán ára fangelsi yfir Agné.

Agné fæddi fullburða lifandi sveinbarn á einu baðherbergja Hótel Fróns, veitti drengnum tvo skurðáverka á andliti með bitvopni og þrengdi að hálsi hans, uns drengurinn lést af völdum kyrkingar.

Fjölskipaður héraðsdómur hafnaði aðalkröfu sækjanda um að dæma Agné samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga sem hljóðar svo: „Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“ En eins og áður segir var farið fram á sextán ára fangelsi.

Dómurinn féllst á varakröfu sækjanda, að 212. grein ætti við. Hún hljóðar svo: „Ef móðir deyðir barn sitt í fæðingunni eða undir eins og það er fætt, og ætla má, að hún hafi gert það vegna neyðar, ótta um hneisu eða sökum veiklaðs eða ruglaðs hugarástands, sem hún hefur komist í við fæðinguna, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.“

Verjandi Agné fór fram á það í héraðsdómi að hún yrði sýknuð af ákærunni um barnsdráp eða, ef fundin sek, gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Kröfuna byggði hann á því að saknæmisskilyrði fyrir sakfellingu væru ekki uppfyllt. Í 18. grein almennra hegningarlaga segi að verknaður sé ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Hvorugt var til staðar í þessu máli að mati verjandans.

Eins og hefð er fyrir verður dómskvaðning upp úr klukkan 16 en dómurinn birtur á vef Hæstaréttar kl. 16.30.

mbl.is