Verður að falla formlega frá kröfunum

Jón Bjarnason, þingmaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, …
Jón Bjarnason, þingmaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, þegar sá síðarnefndi tók við sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það sem ráðherrann þarf að gera er að fá formlegt samþykki á ríkisstjórnarfundi um að fallið sé frá þessum kröfum og síðan að senda bæði samninganefndinni og Bændasamtökunum bréf þar sem tilkynnt er formlega að það hafi verið gert,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.

Hann vísar þar til ummæla Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í umræðum á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingflokksformanni Framsóknarflokksins. Þar sagði ráðherrann að bréf sem Jón sendi Bændasamtökunum í ráðherratíð sinni, um að krafist yrði meðal annars áframhaldandi tollverndar í landbúnaði í viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið og að ekki yrði um að ræða innflutning á hráu kjöti, væri ekki bindandi gjörningur.

Bréfið til Bændasamtakanna í fullu gildi

„Umboðið til samninganefndarinnar er að standa fast á hagsmunum landbúnaðarins og setja fram og halda til haga öllum þeim mikilvægu grundvallarhagsmunum sem þarf að standa vörð um. En þetta er dýnamískt ferli, það er að sjálfsögðu verið að vinna að mótun samningsafstöðunnar þannig að bréf frá forvera mínum til Bændasamtakanna er auðvitað ekki bindandi gjörningur hvað varðar framhald málsins, það liggur í hlutarins eðli. Samninganefndin ber sig jafnóðum saman við þá sem hún er að vinna fyrir og vinna með, fagráðuneyti og utanríkisráðuneyti, og síðan kemur samningsafstaðan sjálf fram og það er hún sem skiptir máli að lokum en ekki gömul sendibréf,“ sagði Steingrímur.

Jón bendir á að það sé fagráðherrann sem beri ábyrgð á sínum málaflokki þegar komi að viðræðunum við Evrópusambandið. Hann hafi kynnt málið í ríkisstjórn. Í kjölfarið hafi hann síðan sent umrætt bréf með formlegum hætti. „Vilji Steingrímur breyta þessu og falla frá þessum kröfum þá verður hann að gera það á sama hátt með formlegum hætti. Á meðan það hefur ekki verið gert stendur umrædd afgreiðsla á málinu og bréfið til Bændasamtakanna,“ segir Jón ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert