Verður orðið of seint í lok janúar

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Frikki

„En við skulum líka átta okkur á því að þetta er verk sem við ætlum að klára hér fyrir kosningar og það hefst ekki ef við fáum ekki umsagnir fyrr en í lok janúar,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í umræðum í þinginu í dag.

Vísaði hún þar til frumvarps að nýrri stjórnarskrá en gagnrýndur var á Alþingi knappur tími sem þingnefndir hefðu til þess að skila inn umsögnum um frumvarpið en það eiga þær að gera fyrir 10. desember næstkomandi. Valgerður sagði að ef einhverjar nefndir þyrftu lengri tíma gætu þær skilað af sér í byrjun janúar en ekki síðar en það.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, var á meðal þeirra þingmanna sem gagnrýndu knappan tíma fyrir umsagnir um frumvarpið en nefnd hennar er með málið til umfjöllunar. Lýsti hún áhyggjum sínum af því hversu skamman tíma þingnefndirnar hefðu til þess að fara yfir frumvarpið.

„Ég held að það sé málinu öllu mjög til góðs og heilla að gefa mun meiri tíma. Að við höfum fram í janúar til þess að fara yfir þetta mál. Öll viljum við vanda okkur. Öll viljum við sýna þessu máli þá yfirvegun og kostgæfni sem það á skilið,“ sagði Guðfríður og bætti við að hún teldi það ekki skemma fyrir málinu heldur þvert á móti að það væri því til hagsbóta.

„Það er ekki bara til góðs fyrir okkur hér, þingheim, heldur líka alla þá ólíku aðila í samfélaginu sem hafa margt fram að færa í þessum efnum, vilja koma að því en geta það ekki með svo stuttum fyrirvara sem raun ber vitni og þess vegna held ég að við eigum að sameinast um það að lengja þessa fresti og gera þá þannig að við getum öll unað við,“ sagði hún ennfremur.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG.
mbl.is