„Ég átti alls ekki von á þessu“

„Þetta er mikill heiður og bara það að vera tilnefndur finnst mér vera mikill heiður,“ segir Inga Björk Bjarnadóttir í samtali við mbl.is en hún hlaut í dag hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands í flokki einstaklinga sem veitt voru í sjötta sinn við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi á alþjóðadegi fatlaðra. Verðlaunin afhenti Jóni Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur.

Spurð hvort hún hafi átt von á því að fá verðlaunin segir Inga að svo hafi alls ekki verið. „Það voru það sterkir einstaklingar sem voru tilnefndir með mér að ég átti alls ekki von á þessu,“ segir hún. Það hafi því komið henni mjög á óvart að fá verðlaunin en hún hlaut þau fyrir að vera öðrum fyrirmynd og fyrir að berjast fyrir bættu aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í Borgarbyggð þar sem hún býr.

Gerpla fimleikafélag fékk hvatningarverðlaun ÖBÍ í flokki fyrirtækja og stofnana „fyrir að hafa, eitt íþróttafélaga, boðið upp á fimleikaþjálfun fyrir fólk með þroskahamlanir allt frá árinu 1997“ og í flokki umfjöllunar og kynningar fékk Lára Kristín Brynjólfsdóttir hvatningarverðlaunin „fyrir baráttu og hugrekki við að vekja umræðu um einhverfu og auka skilning almennings og heilbrigðisyfirvalda á stöðu fullorðinna á einhverfurófi,“ að því er segir í tilkynningu.

mbl.is