Lögreglunni mistókst að verja almenning

Sture Martin Vang fjallaði á fundinum um atburðina 22. júlí …
Sture Martin Vang fjallaði á fundinum um atburðina 22. júlí 2011 í Ósló og Útey. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Sture Martin Vang, lögregluforingi í norsku lögreglunni, segir að það hafi verið erfitt fyrir lögregluna að standa frammi fyrir þeirri niðurstöðu að henni hafi mistekist að vernda almenning gegn hryðjuverkum sem Anders Behring Breivik framdi í miðborg Óslóar og Útey.

Vang fjallaði um voðaverkin sem unnin voru í Ósló og Úteyju 22. júlí 2011 á fundi sem Varðberg, samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál, héldu í dag. Vang fjallaði um viðbrögð lögreglunnar og stjórnvalda við því sem gerðist.

Vang hefur starfað í 13 ár við yfirstjórn norsku lögreglunnar og and-hryðjuverkasveit hennar. Á árunum 1991-1999 starfaði hann í dómsmálaráðuneytinu sem ráðgjafi um lögreglumál. Hann sérhæfir sig í stjórn og þróun norsku lögreglunnar á sviði öryggisgæslu, áhættustjórnunar og framkvæmd viðbragðsáætlana auk leitar og björgunar. Hann hefur tekið þátt í verkefnum og stundað þjálfun með kanadísku lögreglunni, NATO og Sameinuðu þjóðunum.

Lögreglan fékk falleinkunn í skýrslu um voðaverkin

Óháð rannsóknarnefnd fjallaði um viðbrögð lögreglunnar við voðaverkunum. Skýrsla nefndarinnar felur í sér þungan áfellisdóm yfir lögreglunni í Noregi. Nefndin taldi að í fyrsta lagi hefði verið hægt að komast hjá árásinni í miðborg Ósló og í öðru lagi að aðgerðir lögreglunnar til að vernda fólk á Útey hefðu mistekist og að meira hefði verið hægt að gera til að stöðva Breivik.

Vang sagði frá því á fundinum að árið 2004 hefði verið unnin viðamikil skýrsla um öryggismál í Noregi. Í henni hefðu verið settar fram 150 tillögur.

Í skýrslunni er m.a. gerð tillaga um að loka götu við stjórnarráðsbygginguna í miðborg Ósló þar sem sprengjan sprakk 22. júlí. Í skýrslunni er lýst hættu sem því fylgir að hægt sé að aka bíl, hlöðnum sprengiefni, inn götuna og leggja honum við byggingu forsætisráðherrans. Það var nákvæmlega þetta sem Breivik gerði 22. júlí í fyrra. Ekki var búið að hrinda í framkvæmd tillögu um að loka götunni fyrir bílaumferð.

Vang sagði að Breivik hefði látið til skarar skríða á sumarleyfistíma. Þessi tímasetning hefði bæði haft jákvæða hlið og neikvæðar. Vegna sumarfría hefðu færri verið við störf í byggingunni, en jafnframt hefðu margir lögreglumenn verið í sumarfríi og það hefði haft áhrif á vinnu lögreglunnar.

Vang sagði að strax eftir að sprengjan sprakk hefði lögreglan unnið út frá þeirri tilgátu að fleiri en einn hefðu verið að verki og að fleiri sprengjur ættu eftir að springa.

Litlu munaði að Breivik yrði skotinn úti í Útey

Vang sagði að við aðgerðir lögreglunnar þennan dag hefðu fjarskipti verið í lamasessi. Þetta hefði sérstaklega valdið erfiðleikum þegar lögreglan hóf aðgerðir við Útey. Lögreglumönnum hefði upphaflega verið beint á einn stað til að leggja frá landi og síðar á annan stað. Þetta hefði tafið aðgerðir. Ellefu lögreglumenn lögðu síðan af stað í bát út í eyjuna, en báturinn tók inn sjó sem leiddi til þess að það drapst á vélinni. Þetta tafði að sérsveitarmenn kæmust út í eyjuna til að stöðva ódæðismanninn. Ef lögreglan hefði verið 10-15 mínútum fyrr á ferðinni hefði verið hægt að bjarga mannslífum.

Vang sagði að mjög litlu hefði mátt muna að lögreglumenn sem nálguðust Breivik hefðu skotið hann til bana vegna þess að þeir óttuðust að hann væri með sprengjubelti. Lögreglan hefði á þessum tíma fengið upplýsingar um að fleiri en einn ódæðismaður væri í eyjunni og miðað aðgerðir við það.

Lögreglan vanmat hættuna

Vang sagði að það væri erfitt fyrir lögregluna að standa frammi fyrir því að hún hefði gert mistök. Hann sagði að skýrslan hefði haft mikil áhrif á lögregluna. Unnið væri að endurskipulagningu lögreglunnar sem m.a. myndi væntanlega leiða til þess að lögregluumdæmum yrði fækkað. Hann sagði ljóst að lögreglan hefði ekki metið hættuna af hryðjuverkum rétt. Menn hefðu sérstaklega vanmetið hættu af því að einn maður stæði að hryðjuverki. Lögreglan hefði ekki æft nægilega vel viðbrögð við hryðjuverkum. Hann sagði að til hefðu verið áætlanir um hvernig ætti að bregðast við hryðjuverkum, en þegar á reyndi 22. júlí hefðu þær ekki verið notaðar. Lögreglan hefði heldur ekki beitt að fullu afli sínu eða þeim tækjum sem hún réð yfir á þessum tíma.

Vang sagði að lögreglan væri ekki búin að vinna úr skýrslu nefndarinnar, en hún setti fram 31 tillögu, þar af níu sem beinast að lögreglunni. Dómsmálaráðherra Noregs mun leggja fram tillögur um eflingu lögreglunnar í febrúar á næsta ári og í framhaldi af því mun þingið fjalla um þær og ákveða viðbrögð.

Anders Behring Breivik myrti 77 manns í Ósló og Útey …
Anders Behring Breivik myrti 77 manns í Ósló og Útey 22. júlí í fyrra. Junge, Heiko
mbl.is

Bloggað um fréttina