Áhöfnin eingöngu skipuð körlum

Í efri röð frá vinstri eru þeir Kristján Geir Guðmundsson, …
Í efri röð frá vinstri eru þeir Kristján Geir Guðmundsson, Snorri Ómarsson, Snorri Bjarnvin Jónsson og Ármann Skæringsson. Fremstir eru þeir Axel Guðmundsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson.

Eingöngu karlmenn voru í áhöfn farþegavélar Icelandair sem flaug til Stokkhólms í Svíþjóð í gær. Það er ekki á hverjum degi sem það gerist og vekur það jafnan athygli - ekki síður en þegar áhöfnin er einvörðungu skipuð konum.

Þeir Snorri Ómarsson flugstjóri, Snorri Bjarnvin Jónsson flugmaður og flugþjónarnir Ármann Skæringsson, Axel Guðmundsson, Kristján Geir Guðmundsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson skipuðu áhöfnina til Stokkhólms í gær, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair.

Flug Flugleiða til Edinborgar 9. desember árið 1994, eða fyrir sléttum 18 árum, var sögulegt fyrir þær sakir að í áhöfn voru eingöngu karlmenn. Að sögn Icelandair fylgir ekki sögunni hve oft áhöfnin hafi eingöngu verið skipuð karlmönnum síðan þá.

Það var hins vegar á kvenréttindadaginn 19. júní árið 1999 sem fyrsta eiginlega kvennaflugið átti sér stað, en flogið var til Kaupmannahafnar.

Í júní tveimur árum síðar var svo farið annað tímamótaflug þegar flugmennirnir voru báðir konur en flugþjónarnir karlkyns.

Ljóst er að það heyrir til undantekninga þegar áhöfnin er aðeins skipuð karlmönnum eða konum og vekur eðlilega athygli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert