Ekki í nafni Heimssýnar

Ásmundur Einar Daðason, formaður Heimssýnar.
Ásmundur Einar Daðason, formaður Heimssýnar. mbl.is/Ómar

Ásmundur Einar Daðason, formaður Heimssýnar, hefur sent út yfirlýsingu þar sem hann áréttar að skoðanir á vefsíðunni heimssyn.blog.is séu ekki í nafni samtakanna, heldur sé um að ræða sjálfstæðar skoðanir höfunda.

Yfirlýsing Ásmundar kemur í kjölfar bloggfærslu Páls Vilhjálmssonar, framkvæmdastjóra Heimssýnar, sem lét þá skoðun sína í ljós á vefsvæði samtakanna að „verkefnið“ væri að losna við Vinstri-græna af þingi vegna „svika“ sem fólust í því að styðja ESB-umsókn. 

Bloggfærslan vakti nokkra undran og reiði meðal stuðningsmanna Vinstri-grænna sem eiga aðild að samtökunum.

Haft er eftir Hjörleifi Guttormssyni á smugan.is að hann telji óverjandi að starfsmaður Heimssýnar vegi ómálefnalega að einstökum flokkum.

Yfirlýsing Ásmundar Einar er svohljóðandi:

„Heimssýn heldur úti bloggsíðu á vefslóðinni heimssyn.blog.is þar sem fjallað er um dagleg mál sem tengjast umsókn Íslands um aðild að ESB. Vegna bloggfærslna sem birtust um helgina og varða m.a. málefni Vinstri grænna þá vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Heimssýn er þverpólitísk fjöldahreyfing sem hefur það markmiði að berjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Félagsmenn skipta þúsundum, eru búsettir um allt land og eru sammála um það eitt að framtíð Íslands sé betur borgið utan ESB.

Bloggfærslur sem birtast á bloggsíðu samtakanna eru hins vegar alfarið á ábyrgð pistlahöfunda. Bloggfærslur um málefni Vinstri grænna sem birtust um helgina endurspegla ekki samþykkta stefnu Heimssýnar, sem er fyrst og síðast að berjast gegn aðild Íslands að ESB. Stjórn Heimssýnar hefur ekki haft tækifæri til að funda en undirritaður, ásamt þeim stjórnarmönnum sem náðst hefur í, eru ósammála umræddum bloggfærslum og harma birtingu þeirra.

Heimssýn hefur og mun aldrei hafa það að markmiði að berjast gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum. Aldrei hefur verið mikilvægara að ESB-andstæðingar fylki liði óháð pólitískum skoðunum. Stöndum saman og segjum Nei við ESB!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert