Las upp hvert einasta orð Lárusar

Óttar Pálsson, lengst til vinstri, og Lárus Welding, til hægri, …
Óttar Pálsson, lengst til vinstri, og Lárus Welding, til hægri, í Héraðsdómi Reykjavíkur mbl.is/Styrmir Kári

Hvert einasta orð sem Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, ritaði í tölvupósti um Vafningsmálið var lesið upp í dómsal af saksóknara, sagði verjandi Lárusar í munnlegan málflutning. Hann blasa við að aðkoma Lárusar væri afar takmörkuð.

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, hóf málflutning sinn á að gera athugasemdir við inngang saksóknara á sinni málflutningsræðu. Sagði hann almenna skírskotun til efnahagsbrota gefa vísbendingar um að hætt hafi verið að leita að brotinu, en brot hljóti að hafa verið framið vegna eðlis málsins.

Þá sagði hann ákæruvaldið gera of mikið úr hlut Lárusar með því að lesa hvert orð sem hann ritaði um málið upp fyrir dóminn, þegar við blasi að þó hann hafi tekið þátt í umræðu um málið hafi aðkoma hans verið afar takmörkuð.

Hann sagðist verða að gera takmarkaðan greinarmun á láninu til Milestone og Vafnings, vegna þess hvernig ákæran í málinu er byggð upp, og bætti við að hann væri ánægður með spurningar dómara sem beinist að lánveitingunni til Milestone, sem ákært er fyrir, og til Vafnings, sem ekki sé ákært fyrir. Þó svo gott sem um sama lán sé að ræða. „Ákæruvaldið getur ekki borðað kökuna og geymt hana.“

Aðeins stuðst við eitt skjal

Óttar gagnrýndi að láðst hafi verið rannsókn málsins að gefa gaum mikilvægum samskiptum starfsmanna Glitnis við útgreiðslu lánsins. Ekki hafi verið tekin skýrsla af tíu vitnum sem þó hafi verið leidd fyrir dóminn. Það sé nærri helmingur vitna ákæruvaldsins sem fyrst voru kölluð til vitnis um málið fyrir héraðsdómi. Framburður nokkurra þeirra hafi þó greinilega lykilþýðingu í málinu, meðal annars fjármálastjóra Glitnis.

Hvað varðar sýknukröfu Lárusar benti Óttar á að ákæruvaldið styddist aðeins við eitt skjal, ádráttarskjalið. Það gæti gengið upp ef skjalið væri ekki eins óvenjulegt og raun ber vitni. „Fyrir neðan greiðslufyrirmælin rita ákærðu nöfn sín sem samþykki. Þeir hafa borið um að með því hafi þeir heimilað útreiðslu lánsins til Vafnings. En þessu til viðbótar hafa frekari upplýsingar verið færðar inn á skjalið, af allt öðrum toga. Þær voru ekki færðar inn á skjalið á sama tíma.“

Þær upplýsingar sem færðar voru inn á skjalið voru greiðslufyrirmæli um peningamarkaðslán til Milestone.

Gerðist allt á þrettán mínútum

Um ástæður þess að fleira hafi verið ritað á ádráttarskjalið vísaði hann til framburðar Halldórs Halldórssonar, viðskiptastjóra Milestone hjá Glitni, sem staðfesti að um handskrift sína væri að ræða. „Um ástæður þess var hann ekki afdráttarlaus. Sagði að eitthvað hefði komið upp á. Þetta er ekki ósennilegt að virtum framburði vitna fyrir dómnum.“

Óttar sagði að af þessu að dæma væri líklegt að hugmyndin að peningamarkaðsláninu hefði orðið til hjá starfsmönnum bankans á tímabilinu kl. 14.50 til 15.03 umræddan föstudag, 8. febrúar 2008. Gögnin lýsi ákveðinni atburðarrás sem ekki hafði verið upplýst við rannsókn málsins. „Ekki er víst að ákæra hefði verið gefin út ef svo hefði verið.“

Hann vísaði til þess að kl. 14.50 hringdi Halldór í Rúnar Jónsson, forstöðumann gjaldeyrismiðlunar. Í samtali þeirra spurði Halldór hvaða leið væri fljótlegust til að greiða út 102 milljónir evra, kannski yfir nótt. Rúnar spurði fyrir hvern og Halldór sagði að það væri fyrir félag tengt Milestone. Óttar lagði áherslu á að þarna hefði Halldór ekki sagt að lánið væri fyrir Milestone, heldur félag tengt Milestone.

Þá hafi Rúnar sagt að hann þyrfti að fá grænt ljós frá Halldóri og Friðfinni Ragnari Sigurðssyni, forstöðumanni deildar millibankamarkaðar.

Óttar benti á að í samtalinu hafi hvergi verið minnst á Lárus eða Guðmund. Þá fái það stoð í gögnum málsins að Friðfinnur var við hlið Halldórs á þessum tíma.

Friðfinnur hafi svo hringt í baksvinnslu bankans kl. 14.52 og kannað hvað hann hefði langan tíma, eða hver væri lokafrestur til að senda út greiðslur í evrum. Fresturinn var til kl. 15.15.

Nokkrum mínútum síðar, eða 15.03, barst Rúnari tölvupóstur með skjali þar viðhengd var ádráttarbeiðnin með fyrirmælum um peningamarkaðslán til Milestone.

„Er ósennilegt að hugmyndin hafi verið til í samskiptum þessara starfsmanna? Og að þessi háttur hafi verið hafður á vegna þess að tíminn hafi verið á þrotum? Útbúið hafi verið peningamarkaðsskjal þar sem það tæki stystan tíma. Milestone hafi hlaupið í skarðið og tekið á sig skuldbindinguna yfir nótt. Er það ósennilegt? Það held ég ekki.“

Lárus og Guðmundur ekki á staðnum

Þá benti Óttar á að gögnin sýni að það sem átti að vera útgreiðsla til Vafnings hafi orðið að peningamarkaðsláni til Milestone en engin gögn sýni fram á að Guðmundur og Lárus hafi verið á staðnum á þessum tíma. Raunar hafi Lárus verið á fundi í Seðlabankanum um stöðu bankanna og Guðmundur verið á fundi með Stefáni Hilmarssyni úti í bæ. Nota hafi þurft skjal með undirskrift þeirra og því hafi ádráttarbeiðnin, sem þeir höfðu áður skrifað undir, verið notuð.

Óttar vísaði einnig til þess að ekkert vitni sem kom fyrir dóminn hafi geta staðfest að Lárus og Guðmundur hafi eitthvað með peningamarkaðslánveitinguna að gera. „Sönnunarbyrðin hvílir á ákæruvaldinu og þeir verða aðeins sakfelldir ef það er hafið yfir allan vafa að þeir hafi tekið ákvörðun um að lána Milestone. Ákæruvaldið fær engan afslátt af sönnunarkröfum í málinu.“

Aðeins með Glitni í huga

Óttar sagði að honum væri það ekkert sérstaklega ljúft að halda áfram og fjalla um aðra þætti málsins, þar sem það blasi við að málatilbúnaður ákæruvaldsins hafi fallið með sýknukröfunni. „En það þarf að gera ráð fyrir að það sé fræðilegur möguleiki á að þeir hafi gerst sekir um að veita Milestone lán.“

Hvað það varðar þurfi að skoða hvort Lárus hafi misnotað aðstöðu sína og að brot hans hafi verið framin í auðgunarskyni og hvort hann hafi skapað Glitni verulega fjártjónshættu. „Umboðssvik eru í eðli sínu trúnaðarbrot en ekkert bendir til að Lárus hafi gert nokkuð annað en hafa Glitni í huga. Lánveitingunni var ráðstafað til Morgan Stanley og stóð aldrei Milestone eða öðrum félögum til ráðstöfunar. Þá hafði Lárus engra persónulegra hagsmuna að gæta."“

Hann sagði lánveitinguna beinlínis gerða til að bjarga Glitni frá yfirvofandi hættu. „Var þetta rétti tíminn fyrir Glitni til að leggja árar í bát. Ég er sannfærður um að ef ákvörðun hefði verið tekin um að lána ekki og Milestone hefði fallið, og íslenska kerfið, þá hefðu menn talað um að þetta hefði verið sú ákvörðun sem kippti stoðunum undan íslenska kerfinu og margir þeirrar skoðunar að það hefði verið alröng ákvörðun.“

Því hafi Lárus ekkert gert til að bregðast trúnaði bankans. Þá hafi lánið til Vafnings verið framlengt í nokkur skipti, þannig að trúnaðarbresturinn hafi ekki verið meiri en svo.

Engin hætta af láninu til Milestone

Hvað varðar áhættu af láninu til Milestone sagði Óttar að hún hefði verið alveg sú sama og ef það hefði runnið beint til Vafnings. Þetta hafi ekki verið hefðbundið lán. Það hafi beinlínis verið veitt til að verja bankann við verulegu tjóni.

Hann gerði athugasemd við ummæli saksóknara um að ekkert hefði endurheimst af láninu. Glitnir hefði lánað Vafningi mánudaginn 11. febrúar 2008 og lánið Milestone greitt að fullu þann sama dag. Þá hafi undir lok febrúar 2008 fimmtíu milljónir evra verið greiddar af láninu til Vafnings. Vissulega hafi það verið vegna fjármögnunar af hálfu Glitnis, en það tengist ekki þessu máli.

Þá hafi Glitnir tekið Vafning yfir árið 2009 og inni í honum séu þær eignir sem settar voru upphaflega inn auk þess sem félagið eigi haldbært fé.

Óttar sagði enga raunverulega hættu hafa skapast af láninu til Milestone, legið hafi fyrir það yrði uppgreitt á mánudeginum með láninu til Vafnings. Það hafi alfarið verið Glitnis að sjá um að það yrði greitt upp og því hafi fjártjónshættan aðeins verið fræðileg en ekki raunveruleg. „Enda var þetta raunin. Lánið var greitt upp næsta virka dag. Eftir það átti Glitnir enga kröfu á Milestone vegna þessa láns.“

Ekki um slæmt lán að ræða

Hvað varðar þá ákvörðun Glitnis að aðstoða Milestone sagði Óttar að Morgan Stanley hafi geta leyft sér að beita Milestone þrýstingi og setja félagið í þrot. Glitnir hafi stöðu sinnar vegna, s.s. vegna skuldbindinga Milestone hjá Glitni, ekki leyft því að gerast. Hann benti á að Lárus bæri ekki ábyrgð á því, þær skuldbindingar hefði komið til áður en hann tók við sem bankastjóri.

Þá sagði hann lánið sem um ræðir, til Vafnings, ekki hafa verið slæmt lán, enda hafi það verið samþykkt í áhættunefnd Glitnis. Eignir hafi legið að baki og í grunninn hafi eignir Vafnings verið i jafn háar skuldum þess. Ákæruvaldið hafi ekki sett lánveitinguna til Milestone í samhengi og hvaða aðrir möguleikar voru í stöðunni. Þegar metið er hvort fjártjónshætta hafi skapast 8. febrúar verði einnig að líta til áhættunnar sem fylgdi því að lána ekki.

Ráðstöfunin að lána Milestone hafi verið réttlætanleg vegna yfirvofandi hættu sem var miklu meiri en fjártjónshættan sem fylgdi því að lána.

Að lokum sagði Óttar að hvatir Lárusar hafi verið virðingaverðar, hann hafi aðeins verndað hagsmuni Glitnis. Ekkert tjón varð vegna lánsins til Milestone sem var að fullu greitt á gjalddaga. Allt hafi gengið eftir.

Umfjöllun um málflutning verjanda Guðmundar Hjaltasonar birtist á mbl.is síðar í kvöld.

Lárus Welding og Óttar Pálsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lárus Welding og Óttar Pálsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert