Vilborg búin með þriðjung leiðarinnar

Vilborg Arna.
Vilborg Arna.

Vilborgu Örnu Gissurardóttur miðar vel áfram á ferð sinni um suðurskautið en í dag hefur hún sinn tuttugasta og fjórða göngudag.  

Í gærkvöld hafði hún lagt um þriðjung ferðarinnar að baki en leiðangurinn er alls 1140 km frá upphafsstað göngunnar við Hercules Inlet að suðurpólnum. Hún náði líka þeim áfanga í gær að komast yfir á 83. breiddargráðu.

Aðstæður voru erfiðar til skíðagöngu í gær á suðurpólnum, mikið af nýföllnum snjó og því þungt að draga sleðana eða eins og segir í dagbók Vilborgar sem hún heldur úti á heimasíðu sinni www.lifsspor.is:

„Hæhó. Þetta var krefjandi skíðadagur með white out og nýjum snjó. Ég rataði því ofan í nokkra skafla og það er mun þyngra að draga á þurra suðurskautssnjónum. En ég náði mínum 20,1 km og var ánægð með það. Það er annars gleðistund í Hilleberghöllinni núna, því ég náði tveim áfangasigrum í dag. Annars vegar að komast yfir á breiddargráðu 83 og hins vegar að klára þriðjung leiðarinnar.“

Vilborg nýtur stuðnings við leiðangurinn frá ALE (antarctic logistics and expeditions) en hún er í daglegu sambandi við tengillið í búðunum meðan á ferð hennar um suðurpólinn stendur. Þar fær hún m.a upplýsingar um staðsetningu og veðurspá næstu daga. Marc veðurfræðingur hefur m.a. spáð hvítum jólum á suðurpólnum eins og segir í einni bloggfærslu Vilborgar fyrr í vikunni.

Meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Lífi styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans – og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908-1515 (1.500 kr.) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is

mbl.is