Hótel að verða uppbókuð um áramót

Jólalegt í miðborg Reykjavíkur.
Jólalegt í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjöldi ferðamanna á Íslandi á vetrarmánuðum hefur aukist mjög á síðustu árum. Íslensk hótel eru orðin meira og minna uppbókuð um komandi áramót. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að markaðssetningin um Ísland allt árið hafi heppnast mjög vel.

Erna segir að fjölmargir ferðamenn hyggist leggja leið sína til landsins í desember-mánuði: „Hótelin eru orðin meira og minna uppbókuð um áramótin. Það er minna um að ferðamenn verði hér yfir jólin en það er þó eitthvað.“ Ísland þyki greinilega spennandi áfangastaður yfir áramótin.

Erna segir að það megi meðal annars þakka aukinni markaðssetningu fyrir þessa þróun: „Það er mikil fjölgun erlendra ferðamanna yfir vetrarmánuðina og þá horfir maður náttúrlega til þeirrar miklu markaðssetningar sem felst í átakinu um Ísland allt árið.“

Erna segir að ferðamennirnir sem hingað komi í desembermánuði hafi mjög margt að gera hér á landi. „Það er til dæmis mjög mikið um ferðir héðan út frá Reykjavík og margar tegundir af ferðum sem boðið er upp á. Margir fara auðvitað á Gullfoss og Geysi og í Bláa lónið, og það er líka verið að bjóða upp á alls kyns ævintýraferðir upp á fjöll og jökla og ýmsar menningarferðir.“

Jólaskraut í miðborginni.
Jólaskraut í miðborginni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert