„Þetta er mjög undarlegt“

Það er svakalegt magn þarna af dauðri síld. En ég er þó ekki viss um að ástandið sé að versna. Líklegra er að hún hafi safnast saman á þessum tiltekna stað því það er stórstreymt og hún gæti hafa sópast fram og til baka með öldunum,“ segir Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur í Stykkishólmi, sem fór í Kolgrafafjörð í gær til að kanna aðstæður. Hann hafði farið á sama svæði daginn áður. Þá segist hann hafa séð lifandi síld innan um þá dauðu en í gær hafi allt verið steindautt.

„Þetta er mjög undarlegt og líka sú staðreynd að dauð síld sé um allar fjörur fjarðarins innan brúar. Það er alls staðar dauð síld.“

Róbert segist ekki halda að meira magn af dauðri síld hafi verið í firðinum í gær en í fyrradag. „En það getur vel verið að meira magn eigi eftir að berast á land. Ef maður fer út að ströndinni þá sér maður dauða síld alls staðar ofan í sjónum.“

Róbert segir síldina alls ekki horaða. Hún sé í fínu ástandi. Hann segist ekki fullviss um hvað orsaki síldardauðann en telur hægt að útiloka nokkrar kenningar. Magnið og sú staðreynd að hún sé um allan fjörðinn, útiloki t.d. að dauðinn tengist háhyrningum eða selum á veiðum.

„Menn hallast að því að það hafi orðið þarna snögg kæling. Ég tel það ekki ólíklegustu skýringuna.“

Hann segist vona að rannsóknir Hafrannsóknastofnunar eigi eftir að leiða sannleikann í ljós.

Nú um helgina fóru menn úr Grundarfirði á báti inn á Kolgrafafjörð og könnuðu ástand síldarinnar. Samkvæmt heimildum Skessuhorns fundu þeir gríðarlegt magn dauðrar síldar á botni fjarðarins en ekkert líf. 

Stefán segir í samtali við mbl.is að ekki vanti upp á fuglalífið. „Það er þarna gríðarlegt fuglalíf og mikill veisla fyrir fuglana.“

mbl.is

Bloggað um fréttina