Seðlabankinn braut jafnréttislög

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Kærunefnd jafnréttismála telur að Seðlabanki Íslands hafi brotið jafnréttislög með því að hafa ráðið karl í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins en ekki konu sem þótti að minnsta kosti jafn hæf til að gegna starfinu og sá er ráðinn var.

Seðlabanki Íslands auglýsti í apríl 2012 laust starf sérfræðings í lánamálum ríkisins. Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða karl í starfið en hún taldi sig vera hæfari en karlinn sem ráðinn var.

Kærunefnd jafnréttismála taldi kæranda hafa verið að minnsta kosti jafn hæfa til að gegna starfinu og sá er ráðinn var. Konur í starfi sérfræðings hjá Seðlabankanum voru umtalsvert færri og bar því bankanum að leitast við að jafna stöðu kynjanna hvað þau störf varðar.

Seðlabanki Íslands taldist því hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf sérfræðings í lánamálum ríkisins.

Seðlabankinn auglýsti 21. apríl 2012 laust til umsóknar starf sérfræðings í lánamálum ríkisins og voru gerðar ákveðnar hæfniskröfur auk þess sem gerð var grein fyrir inntaki starfsins.

Helstu verkefni voru talin: Útgáfa ríkisbréfa og lántaka á erlendum mörkuðum, skjalagerð vegna erlendra lána ríkissjóðs, samskipti við erlenda banka, fjárfesta og aðra lánveitendur til ríkissjóðs og Seðlabankans, greiningar og skýrslugerð og aðstoð við önnur verkefni, svo sem framkvæmd útboða.

Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar hæfniskröfur: Háskólamenntun (BS/BA) í hagfræði, verkfræði eða sambærilegum greinum, þekking og reynsla af fjármálastarfsemi væri mjög æskileg, mjög gott vald á ensku og íslensku, bæði á töluðu og rituðu máli, góð almenn tölvukunnátta, frumkvæði, nákvæmni og metnaður í starfi, sjálfstæði í vinnubrögðum, færni í mannlegum samskiptum og geta til að halda kynningar og erindi á íslensku og ensku. 

Alls bárust 58 umsóknir en eftir að þær höfðu verið yfirfarnar með tilliti til menntunar, starfsreynslu og annarra kosta umsækjenda var ákveðið að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtöl. Að því loknu var ákveðið að bjóða karlmanni starfið sem hann þáði.

Úrskurðurinn í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert