Töldu hlutinn í Aurum ekki 6 milljarða virði

Jón Sigurðsson, forstjóri FL-Group, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, …
Jón Sigurðsson, forstjóri FL-Group, Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, eigandi Fons. mbl.is/Golli

Starfsmenn Glitnis vissu að verðmæti Aurum Holding í London var stórlega ofmetið og að fyrirtækið ætti í erfiðleikum þegar þeir tóku ákvörðun um að lána 6 milljarða til kaupa á hlut í félaginu. Ákvörðun um lánveitinguna var tekin utan fundar í áhættunefnd þó ekkert lægi á lánveitingunni.

Ákæra sérstaks saksóknara í Aurum Holding-málinu gefur innsýn í hvers konar lánafyrirgreiðslu stærstu hluthafar í Glitni fengu nokkrum mánuðum áður en bankinn féll í október 2008.

Lánveitingar tvöfölduðust eftir forstjóraskiptin

Í lok apríl 2007 hafði FL Group tryggt sér yfirráð yfir Glitni með samtals um 40% hlut, en stjórnarformaður félagsins var Jón Ásgeir Jóhannesson. Í framhaldi af því var skipt um forstjóra í Glitni og Lárus Welding ráðinn forstjóri.

Fyrirtæki í eigu Baugs voru á þessum tíma meðal stærstu viðskiptavina Glitnis, en í byrjun árs 2008 fara útlán Glitnis til Baugs og FL Group yfir 40% af eiginfjárgrunni bankans. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir að útlán Glitnis til Baugshópsins hafi rétt tæplega tvöfölduðust, næstu 6-10 mánuði eftir að skipt var um forstjóra í Glitni. Þegar heildarútlán móðurfélags Glitnis til Baugshópsins voru hæst fóru þau yfir 1,8 milljarða evra (226,5
milljarða króna miðað við þáverandi gengi).

Rekstur Aurum Holding gekk ekki vel

Ákæra sérstaks saksóknar snýst um félagið Aurum Holding sem áður hét Goldsmiths, Mappin & Wepp og WOS. Stærstu hluthafar í félaginu voru BG Holding, dótturfélag Baugs Group í Bretlandi (með tæplega helmingshlut) og Fons með 25,5% hlut.

Reksturinn á Aurum Holding gekk ekki nægilega vel eins og kemur fram í minnisblaði sem starfsmaður Glitnis ritaði í apríl 2008 og vitnað er til í ákærunni. Þar segir að reksturinn 2007 hafi verið undir væntingum og bæði tryggingarskilmálar og heildarlánaskilmálar væru brotnir. Félagið væri ógjaldfært og á athugunarlista bankans.

Fons gat ekki greitt af láni til Glitnis

Glitnir lánaði 2,5 milljarða til Fons 16. nóvember 2007 án tryggingar. Það lán fór til félagsins FS38 sem aftur lánaði upphæðina til FS37 (en það félag fékk síðar nafnið Stím). Stím notaði peningana til að kaupa hlutabréf í Glitni af bankanum.

7. desember lánaði Glitni aftur 2,5 milljarða til viðbótar með veði í skuldabréfum, útgefnum af Baugi. Fyrsta afborgun að þessu láni var í lok febrúar 2008. Bankinn ákvað hins vegar að fresta gjalddaga fram á mitt ár. Samanlögð áhætta bankans vegna lána til Fons var þá komin upp í 24,5 milljarða.

Pálmi Haraldsson, eigandi Fons, og Jón Ásgeir sáu þá leið út úr lausafjárvanda Fons að selja hlut Fons í Aurum Holding. Það var hægt að leysa fleira með þessum viðskiptum því að Fons skuldaði Jóni Ásgeir talsvert fé á þessum tíma.

Hvert var verðmæti Aurum Holding?

Spurningin var bara hvert var verðmæti Aurum Holding á þessum tíma, en um það verður án efa hart tekist í réttarhöldunum á næsta ári. Eins og áður segir vissu starfsmenn Glitnis um að Aurum Holding átti í erfiðleikum. Ráðgjafafyrirtækið Capacent lagði mat á hlut BG Holding í Aurum í árslok 2007. Matið er dagsett 15. febrúar 2008. Niðurstaðan er að verðmætið sé 22,4 milljónir punda, en það þýddi að 25,7% hlutur Fons í fyrirtækinu væri metinn á 13,4 milljónir punda eða um 1,7 milljarð. Starfsmenn Glitnis vissu um þetta mat, en töldu réttara að miða við 1,6 milljarða.

Þegar lánveiting vegna kaupanna var til umræðu innan Glitnis var samþykkt að létta á lánaskilmálum Aurum Holding. Meðal gagna sem lagt var fyrir fund fyrirtækjaútlánanefndar var skjal þar sem félagið var metið á 53,6 milljónir punda, en það þýddi að hlutur Fons í félaginu var 2 milljarðar.

Í byrjun maí 2008 beindi Jón Ásgeir til Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs, nokkuð mótaðri hugmynd um að Glitnir keypti hlut Fons í Aurum Holding. Gunnar sendi tölvupóst um málið til Glitnis þar sem er að finna ítarlega rekstrarálætlun fyrir Aurum til næstu fimm ára. Þar er verðmæti Aurum Holding metið á 100 milljónir punda, sem þýðir að hlutur Fons var metinn á tæplega 3,9 milljarða.

Í þessum tölvupóstsamskiptum er sú hugmynd rædd að skartgripafyrirtækið Damas í Dubai myndi mögulega kaupa hlut í Aurum Holding. Fyrirtækið hafði þó enga ákvörðun tekið um að kaupa sig inn í fyrirtækið og raunar varð ekkert að þeim.

6 milljarða lán - Jón Ásgeir fékk 1 milljarða og Pálmi 1 milljarð

Í ákæru saksóknara kemur fram að Lárus og Bjarni Jóhannesson, viðskiptastjóri Glitnis, hafi lagt mikla áherslu á að af þessum viðskiptum yrði, en aðrir starfsmenn hafi séð mörg tormerki á þeim, m.a. vegna þess að Baugur og Fons nutu ekki lengur lánstrausts hjá bankanum, endurskoðaður ársreikningur Fons lá ekki fyrir og verðmæti Aurum var tekið með fyrirvara.

Sérfræðingar bankans létu í ljós það álit að hlutur Fons í Aurum væri ekki nema 1,5 milljarða króna virði og með slíku láni væri verið að auka stórlega áhættu Glitnis vegna Fons.

Í ákærunni segir að Jón Ásgeir hafi haldið áfram að beita Lárus og Bjarna þrýstingi. Málið var síðan tekið fyrir á fundi áhættunefndar bankans 9. júlí. Á fundinum var bókað að lánabeiðnin, sem átti að taka fyrir á fundinum, hefði verið samþykkt milli funda áhættunefndarinnar af Lárusi Magnúsi Arnari  Arngrímssyni og Rósant Má Torfasyni. Magnús hreyfði ekki andmælum á fundinum. Rósant var ekki á fundinum og hefur neitað því að hafa samþykkt lánabeiðnina.

Saksóknari bendir á í ákærunni að ekki verði séð að nein ástæða hafi verið til að afgreiða þetta mál utan fundar, skömmu áður en nefndin kom saman. „Ekki lá meira á samþykki lánanefndarinnar en svo að lánasamningurinn var ekki undirritaður fyrr en 16. júlí og önnur skjöl vegna lánveitingarinnar ekki fyrr en 21. júlí 2008 og lánið ekki greitt út fyrr en þann dag.“

Með 720 milljóna yfirdráttarheimild

Þrátt fyrir að starfsmenn Glitnis hafi talið að verðmæti hlutar Fons í Aurum Holding hafi ekki verið nema innan við 2 milljarðar og forstjóri Baugs hafi talið verðmætið tæplega 3,9 milljarðar lánaði Glitnir 6 milljarða til kaupanna. 2 milljarðar af upphæðinni fóru inn á reikning hjá Fons, en síðar var einn milljarður af upphæðinni greiddur inn á reikning hjá Jóni Ásgeiri.

Jón Ásgeir notaði 705 milljónir af þessari upphæð til að greiða ótryggða yfirdráttarskuld hans í Glitni. „Naut ákærði Jón Ásgeir þannig lánveitingarinnar persónulega,“ segir í ákæru saksóknara. Yfirdráttarheimild hans hafði á fjórum mánuðum hækkað úr 250 milljónum í 720 milljónir.

Félag í eigu Fons keypti hlutinn af Fons

Sá sem keypti hlut Fons í Aurum Holding var félagið FS38. Peningarnir voru m.a. notaðir til að greiða upp lánið sem tekið var í nóvember 2007. „Engar viðskiptalegar forsendur lágu þannig að baki lánveitingum til FS38, heldur var lánið veitt að áeggjan og vegna þrýstings frá ákærða Jóni Ásgeiri í krafti yfirráða hans yfir tæplega 40% eignarhlut í Glitni, í gegnum FL Group hf., honum sjáfum og Fons til hagsbóta en á kostnað bankans,“ segir í ákærunni.

Hafa þarf í huga að FS38 var að fullu í eigu Fons. Hluturinn í Aurum Holding fór því í reynd aldrei úr eigu félagsins. Saksóknari segir að þessi viðskipti hafi hins vegar aukið verulega áhættuskuldbindingar Glitnis. Lánið hefur ekki fengist endurgreitt og verður að telja fjármuni að stærstum hluti glataða. FS38 hefur verið úrskurðað gjaldþrota og fékkst ekkert upp í lýstar kröfur.

Aurum Holding var selt eftir að skuldir höfðu verið afskrifaðir

Eftir hrun hefur verðmæti Aurum Holding tvívegis verið metið. Endurskoðunarfyrirtækið Ernest & Yong mat það árið 2010 fyrir slitastjórn Glitnis miðað við stöðu félagsins 1. júlí 2008. Niðurstaðan var að verðmæti hlutafjár væri hverfandi ef nokkuð. Dómkvaddir matsmenn, Bjarni Frímann Karlsson og Gylfi Magnússon, mátu verðmæti félagsins í apríl 2012 miðað við stöðu þess 9. júlí 2008. Niðurstaðan er að verðmæti þess hafi verið 464 milljónir.

Jón Ásgeir sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem hann víkur að verðmatinu á Aurum Holding. Hann segir: „Ég tók þátt í því að koma á góðum viðskiptum fyrir Glitni. Menn geta endalaust rifist um verðmat, en það er óumdeilt að Aurum var selt í síðustu viku á 36 milljarða.“

Jón Ásgeir nefnir hins vegar ekki í yfirlýsingu sinni að eftir hrun tóku kröfuhafar Aurum Holding félagið yfir og greiddu fyrir það eitt pund. Með því að létta skuldaklyfjum af félaginu tókst að koma rekstri þess á réttan kjöl. Tap Glitnis og annarra kröfuhafa vegna Aurum Holding nemur milljörðum króna, en Glitnir fékk ekkert út úr sölu fyrirtækisins vegna þess að hlutafé þess hafði verið afskrifað.

Lárus Welding hefur þurft að mæta nokkrum sinnum í Héraðsdómi …
Lárus Welding hefur þurft að mæta nokkrum sinnum í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna mála sem tengjast Glitni. mbl.is/Andri Karl
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Gestur Jónsson verjandi hans. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert