„Það er þörf fyrir okkur hérna“

Frá bænum Bagangga á Filippseyjum. Þar olli fellibylurinn Bopha gríðarmiklum …
Frá bænum Bagangga á Filippseyjum. Þar olli fellibylurinn Bopha gríðarmiklum skemmdum. AFP

„Við förum á milli hjálparsamtaka og greinum þarfir þeirra varðandi samskipti. Þau þurfa að geta komið beiðnum um aðstoð fljótt og örugglega frá sér og þar komum við inn í,“ segir Lárus Steindór Björnsson, í alþjóðasveit Landsbjargar sem nú er staddur á Filippseyjum. „Okkar hlutverk hérna er að samhæfa fjarskiptahlutann.“

Fellibylurinn Bopha reið yfir eyjarnar fyrir um tveimur vikum síðan og olli hann gífurlegum skemmdum. Á milli 250.000 og 350.000 misstu heimili sín og talið er að uppbygging á svæðinu muni taka marga mánuði, jafnvel ár.

Lárus er að störfum á Mindanao, sem er næst stærst Filippseyjanna og sú sem varð verst úti, en fellibylurinn lenti á henni.

Lárus er í fjarskiptahópi Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, sem sinnir fjarskiptamálum Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar. Með honum í för er Gísli Rafn Ólafsson, sem starfar hjá Nethope, en það eru regnhlífasamtök 37 stærstu hjálparsamtaka heimsins og sérhæfa sig í fjarskiptum og tölvutækni á hamfarasvæðum.

Sáttir með árangurinn

„Þetta hefur gengið mjög vel, við erum sáttir með hvernig okkur hefur gengið,“ segir Lárus. „Við fáum upplýsingar um þarfirnar beint frá hjálparsamtökunum og getum þannig brugðist fyrr við. Til dæmis vantaði samtökin Save the Children GPS-tæki og þá fórum við bara í það að redda þeim.“ Tækjabúnaðinn fær Nethope frá ýmsum fyrirtækjum.

Rústir og eyðilegging

Lárus hefur farið víða um Filippseyjar og segir aðstæður þar víða bágbornar. Heilu byggðarlögin séu rústir einar, víða séu falln tré og uppskera hafi víða brugðist. „Ég kom til dæmis í einn bæ í dag og ég held að ekkert hús standi þar heilt eftir.“

Mikil þörf fyrir aðstoðina

Lárus lagði á sig 35 tíma ferðalag til að komast á áfangastað og annað eins bíður hans þegar hann heldur heim á leið, en hann býst við því að koma heim fyrir jól, á Þorláksmessukvöld. Hann telur það þó ekki eftir sér og segir ferðalagið vel þess virði. „Það er mikil þörf fyrir okkur hérna.“

Frétt mbl.is: Íslenskur björgunarsveitarmaður til Filippseyja

Lárus Steindór Björnsson. Myndin var tekin á SAREX Greenland Sea …
Lárus Steindór Björnsson. Myndin var tekin á SAREX Greenland Sea æfingunni við Grænland í haust.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert